Stjórnarfundur Vinir Þórsmerkur

Vinir Þórsmerkur funduðu í gær í blíðskaparveðri og var fundarstaðurinn Básar í Goðalandi/Þórsmörk. Ýmis verkefni voru rædd m.a. fyrirhuguð göngubrú, skipulagsgerð, styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamála og kynningarmál.

Fundagerðina má sjá hér fyrir neðan;

15. fundur stjórnar Vina Þórsmerkur (VÞ) haldinn í Básum Goðalandi 6.5.2015 kl. 13:00-16:30.
Mættir Skúli Skúlason, Markús Einarsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hreinn Óskarsson (ritari) og Páll Guðmundsson. 
Stjórn VÞ fór um Þórsmörk og Goðaland og skoðaði aðstöðu Skógræktar ríkisins og hitti starfsmann Skógræktarinnar Chas Goemans. Einnig hitti stjórn skálaverði í Básum og Langadal og skoðaði dráttarvél Ferðafélagsins sem komin er með tönn framan á vélina sem nýtast mun til að lagfæra vöð.
1. Hönnun brúar gengur vel og kom í ljós við prufuboranir að bergið á brúarstæðinu við Húsadal og norðan ár er veikt og þarf að bæta við sigum og steypufargi til að grundun brúarinnar verði nægjanleg. Hækkar það kostnað við brúna um 10 mkr. Verið er að undirbúa vindgangaprófun á brúarlíkani og fer sú prófun fram í Danmörku seinnipart maí. Er gert líkan af brúnni í stærðinni 1:15 og verða komnar niðurstöður af prófuninni í byrjun júní. Í kjölfar þess verður hægt að ljúka hönnun og gera kostnaðaráætlun. Þegar framkvæmdir byrja verður byrjað á undirstöðum beggja vegna ár og gengið frá þeim. Er gert ráð fyrir að framkvæmdir verði gerðar utan ferðamannatíma. Mögulega verður byrjað að hausti og undirstöður byggðar og svo haldið áfram næsta vor og brúin sett upp. Ekki er ljóst með fjármögnun en VÞ hafa þegar greitt 15 mkr til Vegagerðarinnar vegna hönnunar brúarinnar. Skoða þarf fjármögnun framkvæmda á næstu vikum þegar kostnaðaráætlanir liggja fyrir. Stjórn lýsir ánægju sinni með framvindu hönnunar og hversu fagmannlega verkið er unnið.
2. Deiliskipulag á Þórsmörk var rætt og kom fram að umsagnir hefðu verið nokkrar og hefði verið farið yfir þær af skipulagsnefnd Rangárþings Eystra. Gert er ráð fyrir að skipulagið verði samþykkt í sveitarstjórn og verði sent til Skipulagsstofnunar í kjölfarið og mögulega auglýst í stjórnartíðindum sumar 2015.
3. Félagsgjöld voru rædd og innheimta félagsgjalda. Ákveðið að senda reikning á stofnaðila VÞ og fleiri ferðaþjónustuaðila sem gerst hafa félagar í VÞ. Ritara falið að skoða félagaskrá.
4. Sótt var um styrki til stígaviðhalds á Þórsmörk og fengust 4 mkr úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða fyrir sumarið 2015. Skógrækt ríkisins hefur óskaði eftir framlögum til stígaviðhalds af framkvæmdafé til ferðamannastaða. Svör hafa ekki borist við erindinu.
5. Heimasíða félagsins var rædd og ákveðið að uppfæra hana. Ennfremur ákveðið að setja upp síðu VÞ á fésbók.
6. Vélsmiðjan Magni vinnur að smíði göngubrúa á hjólum og standa vonir til að hægt verði að ljúka við tvær brýr, eina yfir Krossá við Húsadal og aðra yfir Hruná. Ennfremur var stefnt að því að lagfæra brú yfir Steinholtsá og Jökulsá við Gígjökul. Rangárþing Eystra fékk 15 mkr styrk á síðasta ári til þessa verkefnis. Rætt var hvort hægt væri að endurnýja gömlu göngubrúnna við Valahnúk vestan Langadals en hún er mikið skemmd eftir vatnavexti og stendur á þurru eins og er. Sýndist fundarmönnum erfitt að lagfæra brúna á þessum stað og duga hjólabrýrnar hugsanlega til að halda opinni gönguleið yfir Krossá.
7. Stígaviðhald á Þórsmörk og Goðalandi verður með svipuðu sniði og síðustu ár og hefur Chas Goemans ráðið milli 50-60 sjálfboðaliða til starfa í sumar. Mun áhersla verða lögð á viðhald fjölförnustu gönguleiða eins og undanfarin ár ásamt venjulegu viðhaldi á þeim leiðum sem þegar hafa verið gerðar endurbætur á.
8. Rætt var hvort VÞ ættu að stefna á vinnuferð fyrir áhugasama vini Þórsmerkur. 
9. Kynningarmál voru rædd og mikilvægi þess að kynna félagið í fjölmiðlum og það starf sem unnið er á Þórsmerkursvæðinu. Ákveðið að kynna verkefnið í fjölmiðlum og jafnvel að biðja um innslag í Landann.
Fundurinn var haldinn úti í sól og blíðu í Básum og var boðið upp á kaffi og með því. Vill stjórn þakka fyrir góðar veitingar og aðstöðu.