Öskudagurinn hefur verið einn af þeim dögum í skóladagatalinu sem mest er hlakkað til. Vegna þeirra aðstæðna sem við búum nú við þótti ekki heppilegt að börnin væru að ganga á milli fyrirtækja að þessu sinni. Stjórnendur í Hvolsskóla ásamt sínum góða hóp kennara og annars starfsfólks lagði höfuðið í bleyti um hvernig hægt væri að gera daginn skemmtilegan og með mikilli útsjónarsemi og skipulagningu tókst halda skemmtilegan Öskudag innan veggja skólans.

Nítján fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu tóku þátt deginum með því að senda glaðning í skólann og útbúnar voru stöðvar í skólanum þar sem hvert fyrirtæki átti sitt borð þar sem starfsfólk sá um að deila út því sem að í boði var. Fyrirtækin og stofnanir sem tóku þátt voru: Apótekið, N1, TM, Rafverkstæði Ragnars, Rarik, Rangárþing eystra, Lífland, Fóðurblandan, Magni, Húsasmiðjan, Heilsugæslan, Pwc, Krónan, Lögreglan, Sýsluskrifstofan og Bókasafnið. Landsbankinn og Björkin sáu um að gefa popp og svala fyrir kvikmyndasýningar inni í bekkjastofunum sem voru fyrstar á dagskrá og SS gaf pylsuveislu fyrir bæði skólann og leikskólann í hádeginu. Öll þessi fyrirtæki og stofnanir fá miklar þakkir fyrir að taka þátt.

Um 11 hópuðust svo allir út á skólaplan og marserað var af stað kringum skólann og íþróttahúsið. Heiðar Óli Jónsson, formaður nemendaráðs, leiddi hópinn ásamt fylgdarmönnum og voru þeir með stærðar hátalara með svo marserað væri við undirleik.

Fleiri myndir frá marseringunni.

Dagurinn var skemmtilegur í alla staði og eiga nemendur, kennarar og starfsmenn Hvolsskóla hrós skilið fyrir undirbúning og þátttöku í Öðruvísi Öskudegi.