Þann tíma sem mælirinn hefur verið á Hvolsvelli hefur ástand loftgæða almennt verið gott. Á þessum tíma hafa 3 dagar farið yfir heilsuverndarmörk en á sama tíma fór svifryk á Grensásvegi í Reykjavík 9 sinnum yfir heilsuverndarmörk.  Mjög fáir dagar hafa komið á Hvolselli á mælitímabilinu þar sem öskufoks hefur gætt af einhverju ráði. Á sama tímabili hafa hins vegar verið allmargir dagar þar sem talsvert öskufok hefur verið undir Eyjafjöllum.

Í ljósi þessa metur Umhverfisstofnun það svo að meiri þörf sé fyrir mælinn undir Eyjafjöllum. Einnig komu fram eindregnar óskir frá íbúum undir Eyjafjöllum að flytja mælinn þangað. Í samráði við sveitarstjóra Rangárþings eystra og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur Umhverfisstofnun því ákveðið að flytja mælinn frá Hvolsvelli og staðsetja hann undir Eyjafjöllum. Verður mælirinn fluttur við fyrsta tækifæri.

 
Mynd: Sólarhringsmeðaltöl svifryks á Hvolsvelli frá 23.september 2010. Rauða línan sýnir heilsuverndarmörk. Dagarnir sem fóru yfir mörkin voru 25, 30 og 31 október.