Þann 12. maí sl. fór fram Ringó mót í Íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Um 30 keppendur, 50 ára og eldri, tóku þátt og komu þeir frá Borgarnesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og af HSK svæðinu. Mótið hófst kl. 11 og stóð til 13 og eftir að búið var að leika síðasta leik héldu keppendur í Hvolinn þar sem framreidd var dýrindis súpa í boði SS ásamt ýmsu meðlæti sem Ásta Laufey og Ólafur Elí lögðu til.

Úrslitin fóru á þann veg að HSK 1 lenti í fyrsta sæti með 5 sigra úr 6 leikjum en hér fyrir neðan má sjá öll úrslit.

Öll úrslit

Öllum þeim sem aðstoðuðu við framkvæmd mótsins er þakkað kærlega fyrir alla aðstoðina.

 

Um Ringó

Ringó svipar nokkuð til blaks en í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum. Spilað er á blakvelli í fjögurra manna liðum og þátttakendur þurfa ekki að búa yfir neinni sérstakri kunnáttu eða getu annarri en að geta gripið með annarri hendi og kastað yfir netið. Ringó er því frábær íþrótt fyrir fólk á öllum aldri og skemmtilegt hópefli fyrir fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði.