Í síðustu viku funduðu sýslumaðurinn á Hvolsvelli, lykilstarfsmönnum hans og  greinarhöfundi með íbúum allra gömlu hreppa sveitarfélagsins. Þar sem farið er yfir áhrif eldgossins á íbúa á svæðinu og kallað fram allt sem betur mátti fara og það sem vel tókst til.  Þessir fundir eru eins og annað sem sýslumaður yfirlögregluþjónn og fulltrúi hafa stjórnað varðandi þessara viðbrögð við þessari náttúruvá til mikillar fyrirmyndar. Villandi upplýsingar hafa farið í loftið eins og allt sé frágengið varðandi gosið að hálfu stjórnvalda.

Við höfum staðið í stappi við Viðlagatryggingu vegna ákveðinna mála og enn eru íbúar sem telja sig ekki hafa fengið bætur vegna eldgossins.  Á íbúafundum hefur verið bent á atriði sem nauðsynlegt er að séu í lagi á svæðinu okkar. Þar má nefnda fjarskipti, útsendingabylgjur RÚV eru í miklu ólagi og bentu íbúar á að kristilega útvarpsstöðin Lindin næðist betur á svæðinu er Ríkisútvarpið. Þrátt fyrir að RÚV hafi aðra höndina ofan í vasa íbúanna þegar innheimt eru afnotagjöld. Lindin er sennilega betur tengd himnaförðunum.

Þá er brýnt að bæta samgöngur á svæðinu þar sem enn eru fornaldarvegir sem ekki hafa verið byggðir upp á nútíma vísu.  Það sem er nú sínu alvarlegast er að hið nýja Velferðarráðuneyti hefur gefið okkur langt nef, skjaldborgin margumtalaða er aðallega varnarvirki í kringum þá sjálfa og ómögulegt að fá áheyrn þeirra eða viðtöl.  Í eldgosinu fékk Hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvoll á Hvolsvelli þrjú hvíldar- og innlagnarrými þar sem óhug lagði að eldra fólki sem lengi hafði dvalið heima og leitaði það skjóls á heimlinu. Þessi hvíldarrými hafa ekki fengist endurnýjuð og auk þess hefur verið tekið af heimilinu eitt dvalarrými. Hjá okkur er langur biðlisti og þar sem ég veit að ráðherra velferðarmála er gamall og gegn skáti og hefur hann því væntanlega slagorðið „ávallt viðbúinn“ í heiðri.

Við treystum því að hann, þrátt fyrir að illa ári í þjóðfélaginu, þá þarf að taka tillit til þess ástands sem hér er. Eldgos er annarskonar náttúruvá en jarðskjálftar, því áhrif eldgossins vara lengur. Velferðarráðuneytið stendur ekki undir nafni ef ekki er tekið tillit til aðstæðna okkar. Sveitarstjórn þakkar engu að síður fjölmargt sem vel hefur verið gert að hálfu stjórnvalda sem í rauninni er miklu fleira en það sem farið hefur úrskeiðis. Engu síður er nauðsynlegt að bretta upp ermar og koma þeim málum sem enn eru óleyst í viðunandi horf. Réttlæti vegna náttúruhamfara hlýtur að vera sanngjörn krafa okkar.

Ísólfur Gylfi Pálmason
Sveitarstjóri Rangárþings eystra