Þessa dagana fer fram söngnámskeið eða masterklassi í Selinu á Stokkalæk. Tveir af aðalkennurum tónlistarháskólans í Amsterdam dvelja í Selinu í vikutíma og kenna söngtækni með áherslu á öndun og líkamsmeðvitund sem er framförum í sönglistinni afar mikilvæg. Valerie Guillorit er frönsk sópransöngkona og hefur kennt við skólann í Amsterdam frá 2004. Árið 2011 hóf hún einnig að kenna við aðaltónlistarháskólann í París. Valerie Guillorit kennir reglulega á masterklössum í Evrópu og Kanada auk þess að sitja í dómnefndum ýmissa söngkeppna. Paul Triepels sér um leiðsögn í líkams- og öndunarmeðvitund í söngdeil skólans í Amsterdam en hann er einnig lærður söngvari. Hann kennir víðar en í Amsterdam og leiðbeinir söngvurum í öðrum tónlistarháskólum og óperuhúsum, t.d. í Sviss, Frakklandi og Hollandi. Þau Paul Triepels og Valerie Guillorit hafa unnið náið saman um árabil og á þessu námskeiði í Selinu á Stokkalæk fá íslenskir og erlendir söngvarar að njóta leiðsagnar þeirra.

 

Það er Hrafnhildur Árnadóttir sópran sem hefur haft veg og vanda af þessu einstaka námskeiði en hún stundar nú framhaldsnám við Konservatoríið í Amsterdam. Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari leikur með söngvurunum en hún lauk mastersprófi í píanómeðleik frá Royal Academy of Music í London árið 2009. Námskeiðinu lýkur með tónleikum í Selinu á Stokkalæk föstudaginn 31. ágúst nk. kl. 16 en þar velja tíu þátttakendur frá fimm löndum úr því efni sem þeir vinna með á námskeiðinu. Efnisskrá þessara tónleika verður því bæði fjölbreytt og áhugaverð en hún verður ekki kynnt fyrr en á tónleikunum sjálfum.