Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnnar í Rangárvallasýslu, V-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum skólaárið 2012-2013 fór fram í Hvolsskóla miðvikudaginn 10. apríl. Þar kepptu þátttakendur frá sex skólum. Auk Hvolsskóla tóku þátt:Grunnskólinn í Vestmannaeyjum, Kirkjubæjarskóli, Laugalandsskóli, Grunnskólinn á Hellu og Víkurskóli.

Í tilefni dagsins var slegið upp sýningu sem sýndi á margvíslegan hátt öflugt lista- og skólastarf í Hvolsskóla. Skreytingar við púlt voru handverk nemenda í 7. bekk og boðið var upp á margvísleg skemmtiatriði sem samanstóðu af tónlistarflutningi og leiklist samhliða keppninni. Friðrik Erlingsson, annað skálda keppninnar ávarpaði samkomuna. Dómnefnd var skipuð þeim Þórði Helgasyni formanni dómefndar f.h. Radda – samtaka um vandaðan upplestur og framsögn, Jóni Özuri Snorrasyni íslenskuennara í Fjölbrautaskóla Suðurlands og Þorvaldi H. Gunnarssyni deildarstjóra í Vallaskóla á Selfossi.

Keppendur Hvolsskóla stóðu sig virkilega vel í keppninni en úrslit urðu eftirfarandi:

  • 1. sæti: Agnes Hlín Pétursdóttir, Hvolsskóla
  • 2. sæti: Sara Renee Griffin, Grunnskóla Vestmannaeyja
  • 3. sæti: Guðni Steinarr Guðjónsson, Hvolsskóla
  • Aukaverðlaun: Íris Þóra Sverrisdóttir, Laugalandsskóla.

Anna Kristín Guðjónsdóttir hefur haft veg og vanda af undirbúningi nemenda og óskum við keppendum sem og 7. bekk öllum til hamingju með árangurinn. Glæsilegur árangur og til sóma fyrir starfsfólk og foreldra nemenda.

Myndirnar hér að neðan eru teknar eftir undankeppnina í Hvolsskóla, af 7. bekk og af Agnesi Hlín og Guðna Steinarri

(Frétt og myndir af vef Hvolsskóla)