Sunnudaginn 12. ágúst kl. 16 halda þeir Matthías Ingiberg Sigurðsson klarínettuleikari og Christos Papandreopoulos píanóleikari tónleika í Selinu á Stokkalæk. Þeir munu verða með fjölbreytta og metnaðarfulla efnisskrá, bæði einleiksverk fyrir klarínettu og verk fyrir klarínettu og píanó, eftir Johannes Brahms, Francis Poulenc, Þorkel Sigurbjörnsson, Béla Kóvacs og bandaríska tónskáldið Nick Norton. Eftir þann síðastnefnda verður frumflutningur á verkinu Nightttt Loops fyrir klarínettu, rafhljóð og píanó en það samdi Norton sérstaklega fyrir Matthías. Miðapantanir eru í síma 8645870.

 

Matthías Ingiberg Sigurðsson er 22 ára. Hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2010 þar sem hann hafði stundað klarínettunám hjá Sigurði I. Snorrasyni og síðar Kjartani Óskarssyni. Hann stundar nú framhaldsnám við Conservatorium van Amsterdam undir leiðsögn Hans Colbers. Matthías hefur sótt masterklassa hjá Dimitri Ashkenazy, Martin Fröst, Christo Barrios, Julian Farrel og Kinan Azmeh. Hann hefur komið fram með ýmsum hópum, svo sem Orkester Norden, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk ýmissa minni kammerhópa bæði hér á landi, í Hollandi, Noregi, Tékklandi og Englandi. Þá hefur hann haldið nokkra einleikstónleika, þ.á.m. á Tónlistarhátíð unga fólksins, og komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Matthías hlaut nú í vor fyrstu verðlaun á alþjóðlegri klarínettukeppni á Kýpur.

 

Christos Papandreopoulos er fæddur í Aþenu í Grikklandi 1987. Auk lögfræðináms stundaði hann píanónám við National Conservatory og útskrifaðist þaðan með fyrstu verðlaun. Hann hefur unnið ýmsar tónlistarkeppnir í heimalandi sínu og tekið þátt í tónlistarhátíðum þar og á Ítalíu. Hann hefur sótt masterklassa í píanóleik m.a. hjá píanóleikurunum Martino Tirimo og Dora Bakopoulos. Hann stundar nú nám við Conservatorium van Amsterdam undir leiðsögn Marcel Baudet.