Á sveitarstjórnarfundi 18. febrúar var samþykkt samhljóða að kaupa Austurveg 4, ásamt lóð á 70.000.000 af Reitum II ehf. Gerð verður breyting á fjárhagsáætlun vegna þessara kaupa.

D-listi gerði bókun vegna kaupanna sem hljóðar svona: Við erum samþykk kaupum á umræddri fasteign fyrir umrætt verð, enda eign í hjarta bæjarins og meðfylgjandi lóð sjálfur miðbær Hvolsvallar. Okkur finnst þó skorta skýra áætlun frá meirihlutanum um tilhögun endurbóta á húsnæðinu; um kostnað við þær, hvernig þær verði fjármagnaðar, hvernig þeim verði skipt niður í verkþætti o.s.frv., en ljóst er að ráðast þarf í umtalsverðar endurbætur á hinni keyptu eign. Við leggjum til að slík áætlun verði gerð og hún lögð fyrir sveitarstjórn til ákvörðunar, enda um að ræða breytingar á fjárfestingaáætlun ársins 2013. Samfara þessu yrði unnin greining í samræmi við 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um mat á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins enda er það lögskylt fari fjárfestingin í heild sinni yfir 20% af skatttekjum sveitarfélagsins á því ári sem framkvæmdir hefjast.

Elvar Eyvindsson
Kristín Þórðardóttir

Með kaupum á þessari eign þá eykst skrifstofurými sveitarfélagsins og möguleiki verður á því að færa alla starfsemi sveitarfélagsins undir eitt þak.

Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér