Leikfélag Austur- Eyfellinga æfir Kardimommubæinn

Leikfélagið fór af stað með miklum krafti  eftir áramótin að æfa Kardimommubæinn eftir Torbjörn Egner.  Æfingar hafa gengið vel og er áætlað að frumsýna  leikritið á Heimalandi 19. mars. 

Leikendur eru 19 en  30 – 40 manns koma að sýningunni.  Við leggjum mikinn metnað í ljós, tónlist, sviðsmynd og búninga.  Til að leikstýra okkur höfum við fengið Sigurð Hróarsson.
Nú er risinn lítill bær, Kardimommubær, á sviðinuu á Heimalandi.  Búið að koma fyrir hringsviði til að auðvelda sviðsskiptingar og hús ræningjanna og Soffíu frænku bíða bara eftir smá málningu.
Leikarar eru á öllum aldri frá 10 – 70 ára.  Börnin sem taka þátt í leikritinu, hafa öll verið í leiklistarkennslu hjá leikfélaginu undanfarin ár, sum allt að fjögur ár.
Leiklistarkennslan fer fram allan veturinn einu sinni i viku.


Það má segja að allt sveitarfélagið taki þátt í þessari uppfærslu.  Þáttakendur koma frá Skógum í austri og Hvolsvelli í vestri og alls staðar að þar á milli.  Við höfum notið ákaflega mikillar velvildar í þessum undirbúningi, ekki síst frá sveitarfélaginu, sem hefur lánað okkur bíl til að koma leikurunum á æfingar og húsnæði okkur að kostnaðarlausu.  Einnig hefur Stracta Hótel, gefið efni í sviðsmynd.  Nánast allir sem við leitum til með smíði, saumaskap, leikumni og annað eru boðnir og búnir til að hjálpa.  Þetta jákvæða viðhorf til þessa starfs er ómetanlegt og þakkarvert.