Nú er vorið að gengið í garð og sumarið á næsta leiti með tilheyrandi útiveru og garðrækt hjá ungum sem öldnum. Það er því gott að skerpa á reglum sem eiga við hunda- og kattahald í þéttbýli því þessi gæludýr eru jú auðvitað glöð að komast út í góða veðrið eins og við mannfólkið.

Það hefur þó, því miður, borið á því að eigendur séu ekki að fylgja samþykktum sveitarfélagsins varðandi hunda- og kattahald og mikið er um að þessi dýr séu vafrandi um allt þéttbýlið og valda óþægindum og skemmdum. Þessi tími er kjörtími til að setja niður kartöflur og planta jafnvel blómum og trjám og kettir virðast sækjast óhemju mikið í að róta upp í moldinni og eyðileggja þar með garðræktina fyrir íbúum sem veldur sannarlega leiðindum. Ef dýrin eru laus geta þau hrætt bæði unga sem aldna og síðast en alls ekki síst er það verulega hvimleitt að úrgang frá þessum dýrum er að finna á opnum svæðum sem og í einkagörðum, oft þar sem börn eru að leika. 

Samkvæmt 2. gr. samþykkta um hundahald skal hundur aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd aðila sem fullt vald hefur yfir honum. Í 3. gr. samþykkta um kattahald kemur skýrt fram að kattareiganda er skylt að gæta þess að köttur hans valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. 

Í samþykktum um bæði katta- og hundahald er heimilt að ná dýrunum í búr þegar brot hefur átt sér stað á samþykktinni. Kostnaður við slíkt fellur á eigendur dýranna. Það er því öllum til hags að hundar og kettir séu sem minnst lausir í þéttbýlinu og allra síst án eftirlits.