Heilsueflandi september 2015 í Rangárþingi eystra

Heilsueflandi september byrjar á Heilsuviku Rangárþings eystra. Heilsuvikan stendur yfir dagana 30. ágúst - 6. september. 2015. 
Þegar Kjötsúpuhátíð sveitarfélagsins lýkur tekur árleg Heilsuvika sveitarfélagsins við. Heilsuvikan byrjar með göngu um þéttbýlið í umsjón Ísólfs Gylfa sveitarstjóra. Lagt verður af stað sunnudaginn 30. ágúst frá íþróttahúsinu klukkan 10:30
Heilsuvikan gefur tóninn fyrir Heilsueflandi september 2015 sem er nýjung hjá sveitarfélaginu. Sveitarfélagið verður með fjölbreytta dagskrá allan mánuðinn í formi fyrirlestra um heilsu, mat, forvarnir, markmiðasetningu og margt fleira tengt andlegri og líkamlegri heilsu. Þá verða ýmsar uppákomur sem tengjast hreyfingu á einn eða annan hátt og taka skólarnir í sveitarfélaginu virkan þátt. 
Einn af liðum heilsuvikunnar er íbúaþing um heilsueflingu í Rangárþingi eystra. Þingið verður í Hvolnum 2. september klukkan 19.30. Ólafur Örn íþrótta- og æskulýðsfulltrúi sveitarfélagsins verður með kynningu og Árni Þorgilsson mun stýra fundinum. Hvetjum við alla sem hafa áhuga á heilsueflingu til að mæta og taka þátt. Stór hluti heilsueflingar og forvarna er samvinnuverkefni margra aðila og má þar m.a. nefna,  KFR, Dímon, björgunarsveitina Dagrenningu, ungmennafélögin, leikfélögin, skólarnir og sveitarfélagið. Allir velkomnir 
Þegar haustar fara margir íbúar í langþráða rútínu aftur eftir gott sumar. Hluti af rútínunni er að fara hreyfa sig reglulega, taka matarræðið í gegn, kynnast einhverju nýju og víkka sjóndeildarhringinn. Sveitarfélagið leggur sitt af mörkum með heilsueflandi september og býður íbúum m.a. frítt í líkamsrækt og sund út Heilsuvikuna. Allan september verður tilboð á árskortum í líkamsræktina og sund á Hvolsvelli á kr. 39.900.- Kortin fást í íþróttahúsinu. 

Sveitarfélgið tekur þátt í Move Week http://iceland.moveweek.eu/ og lokar þannig heilsueflandi september 2015. Sveitarfélagið vonar að Heilsueflandi september verði gott innlegg í verkefni komandi veturs og um alla framtíð. 

Dagskrá Rangárþings eystra fyrir Move Week verður kynnt fljótlega, fylgist með á heimsíðu sveitarfélagsins og á Facebook https://www.facebook.com/rangarthingeystra

 

 RAGGA NAGLI 14. SEPTEMBER 2014 KLUKKAN 20.00