Harry Potter þema tók algjörlega yfir skólastarf elsta stigs 1. - 16. febrúar en þá breyttist Hvolsskóli í Hogwarts skóla og nemendur skiptust niður á fjórar heimavistir. Almennt skólastarf litaðist af þemadögunum og því voru t.d. reikniþrautir með Harry Potter ívafi, nemendur sömdu ljóð á dönsku um HP og útbjuggu kort af London þar sem merktir voru inn helstu ferðamannastaðir í Samfélagsfræði. Allar heimavistir bjuggu til Hlaðvörp og sjónvarpsfréttir og gáfu út fréttabréf. Heimavistirnar unnu svo að því að safna stigum en stig voru gefin fyrir ýmis verkefni, hátterni og góðverk. 

Í íþróttahúsinu spiluðu vistirnar svo Quidditch hver við aðra og var keppnisskapið mikið og vistirnar stóðu sig allar vel, hvort sem það var í spilamennsku inni á vellinum eða með stuðning á pöllunum. Það var lið Hufflepuff sem sigraði keppnina að lokum.

Síðasta dag þemadaganna var mikil spenna í loftinu en þá var komið að því að kynna afraksturinn fyrir dómnefnd og allar heimavistirnar áttu möguleika á því að sigra keppnina en flest stig samtals fengust fyrir þennan lokadag. Í dómnefnd voru þau Árný Lára Karvelsdóttir, Bæring Jón Breiðfjörð Guðmundsson og Óli Jón Ólason. Heimavistirnar voru m.a. metnar eftir skreytingum, kynningu á básum og heildarútliti. Dómararnir áttu erfitt verk fyrir höndum og var það samróma álit þeirra að nemendurnir hefðu staðið sig virkilega vel og ættu öll hrós skilið ásamt kennurum sínum og umsjónarmönnum. Ásamt dómurum fengu nemendur á yngsta- og miðstigi að heimsækja vistirnar og einnig elstu börnin í leikskólanum.

Eftir að vistirnar höfðu verið metnar tók við danskeppni þar sem hver vist hafði undirbúin hópdans og Hufflepuff vistin var tilkynnt sem sérstakir sigurvegarar þeirrar keppni.

Dómararnir réðu svo ráðum sínum og að lokum var niðurstaðan sú að Ravenclaw heimavistin hefði sigrað og fengu þau því heimavistarbikarinn. 

Þemadagarnir voru virkilega vel heppnaðir og fengu nemendur að spreyta sig á hinum ýmsu verkefnum, bæði til gamans og af alvöru. Kennarar, starfsfólk og umsjónarmenn dagana eiga virkilega stórt hrós skilið sem og nemendurnir sem lögðu sig fram um að vel tækist til.

Myndir frá lokadeginum.