Ljóst er að áhrif Covid-19 mun hafa veruleg áhrif á íbúa og atvinnulíf í sveitarfélaginu sem og landinu öllu. Ferðaþjónusta hefur verið ört vaxandi atvinnugrein í sveitarfélaginu undanfarin ár. Mikil óvissa ríkir innan greinarinnar um hve langvinn áhrifin verða en mikið tekjutap verður innan greinarinnar á meðan þetta ástand ríkir. Líklegt er að talsverður fjöldi missi vinnu sína eða þurfi að taka á sig skert vinnuhlutfall. Áhrifanna gætir víða í okkar samfélagi og mun því sveitarstjórn Rangárþings eystra veita kröftuga mótspyrnu og gera allt sem í hennar valdi stendur til að fleyta okkur áfram inn í bjartari tíma.

Eftirfarandi eru fyrstu aðgerðir sveitarstjórnar varðandi efnahagsleg viðbrögð við Covid-19:

  • Samþykktar eru breytingar á gjalddögum í áður samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda fyrir árið 2020. Fyrirtæki og íbúar sem hafa orðið fyrir verulegum áhrifum ástandsins geta óskað eftir því að gjalddagar sem vera áttu 1. apríl, 1. maí og 1. júní frestist um allt að 7 mánuði eða til 1. desember í síðasta lagi. Hægt er að sækja um með eyðublaði sem finna má á heimasíðu sveitarfélagsins og senda á hvolsvollur@hvolsvollur.is eða hafa samband í síma 488-4200.
  • Tímabundin niðurfelling gjalda í mötuneyti, Skólaskjóli og leikskóla. Allir sem kjósa að hafa börnin sín heima viku eða lengur í senn, fá niðurfellingu gjalda á leikskóla, mötuneyti grunnskólans og Skólaskjóli fyrir það tímabil sem þjónustan er ekki nýtt. Þetta ákvæði gildir til 31. maí 2020.
  • Íþróttamiðstöð Rangárþings eystra var lokað 23. mars síðast liðinn um óákveðinn tíma. Kort einstaklinga hafa verið fryst og mun tímabilið sem lokað er bætast aftan við gildistíma kortanna. Ekki þarf að óska eftir þessari framlengingu á korti, heldur verðu hún sjálfkrafa á öll gildandi kort.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra felur skrifstofu- og fjármálastjóra heimild til fullnaðarafgreiðslu á ofangreindum málum.

Einungis er um allra fyrstu aðgerðir sveitarstjórnar að ræða. Unnið verður hörðum höndum að öðrum aðgerðum á komandi tímum til að styðja við og styrkja bæði íbúa og atvinnulíf.

Sveitarstjórn telur mikilvægt að á tímum sem þessum verði settur aukinn kraftur í umsvif sveitarfélagsins varðandi fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. Sveitarfélagið okkar stendur vel fjárhagslega og er vel í stakk búið til þess að setja aukinn kraft í framkvæmdir og fjárfestingar til að sporna við samdrætti sem á sér stað á öðrum stöðum í atvinnulífinu. Því er það tillaga sveitarstjórnar að aukin þungi verði settur í eftirfarandi framkvæmdir sem nú þegar hafa verið áætlaðar á vegum sveitarfélagsins.

Þar á meðal eru eftirfarandi framkvæmdir:

  • Hönnun og bygging nýs leikskóla á Hvolsvelli
  • Viðhald og endurnýjun á veitukerfum
  • Gatnagerð í nýju íbúðahverfi norðan Króktúns
  • Ofanbyggðavegur með tengingu við þjóðveg 1
  • Umferðaröryggisáætlun með áherslu á framkvæmdir sem auka umferðaröryggi
  • Uppbygging ferðamannastaða í sveitarfélaginu
  • Uppbygging vega í dreifbýli í samvinnu við Vegagerð og ríki
  • Sköpun nýrra starfa á vegum sveitarfélagsins
  • Framkvæmdir við nýjan miðbæ á Hvolsvelli
  • Átak verði gert í bættri ásýnd sveitarfélagsins
  • Sett verði af stað markaðsátak fyrir sveitarfélagið
  • Uppbygging göngu og hjólreiðastíga til að auka enn frekar tækifæri til útivistar og heilsueflingar

Ekki er um tæmandi lista að ræða varðandi framkvæmdir sem settar verða í forgang né heldur tímaröð. Auk þess mun verða brugðist við þeim verkefnum sem upp koma hverju sinni með hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa að leiðarljósi.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra vill einnig koma á framfæri þakklæti til íbúa sveitarfélagsins fyrir æðruleysi og samstöðu á þessum fordæmalausu tímum enda mikilvægt að á slíkum stundum standi allir þétt saman og vinni sem ein heild samfélaginu öllu til heilla.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra.