18. - 23. október eru stödd hér á landi úttektaraðilar frá UNESCO til að meta stöðu Kötlu jarðvangs. Úttektaraðilar koma frá öðrum jarðvöngum víðsvegar um heim og að þessu sinni eru það þau Julia Franzen frá Vulkaneifel Geopark og Nick Powe frá English Riviera Geopark sem taka út Kötlu jarðvang

Jarðvangar um allan heim fara í gegnum einskonar úttekt á fjögurra ára fresti. Þar eru framfarir og störf jarðvangsins skoðuð og einnig hverju þarf að vinna betur að o.s.frv. Eftir úttektina liggur fyrir niðurstaða sem getur farið á þrjá vegu, rauða-, gula-, og græna kortið. Fái jarðvangur rauða kortið missir hann titilinn UNESCO Global Geopark, gula kortið gefur jarðvangnum aðeins tvö ár til að bregðast hratt við tillögum til umbóta. Græna kortið er svo besta mögulega útkoma þar sem jarðvangnum eru gefin fjögur ár til að vinna að tillögum til umbóta

Dagskrá þessarar tæpu viku er mjög þétt enda margt fróðlegt og fallegt að sjá í Kötlu jarðvangi. Rangárþing eystra tók á móti þeim Juliu og Nick á þriðjudagsmorguninn en með þeim í för eru þau Berglind Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs, Jóhannes Marteinn Jóhannesson, fræðimaður hjá jarðvanginum og Sigurður Sigursveinsson, stjórnarmaður í stjórn Kötlu jarðvangs og meðlimur í stjórn evrópska netverks jarðvanga.

Lilja Einarsdóttir, sveitarstjóri, og Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi kynntu Rangárþing eystra fyrir hópnum og héldu þau svo í Hvolsskóla sem er vottaður Geoskóli og var fyrstur sinnar tegundar á Íslandi. Þar tóku þau Íris Dröfn, Sigurþór Árni, Elín Kristín og Ólafía Ragnheiður á móti gestunum og héldu fyrir þau frábæra kynningu á þeim umhverfisverkefnum sem verið er að vinna að í Hvolsskóla. Krakkarnir, sem eru öll nemendur á elsta stigi, fluttu kynninguna á ensku og þóttu standa sig einstaklega vel.

 Elín Kristín, Íris Dröfn, Sigurður, Berglind, Julia, Nick, Ólafía, Sigurþór og Jóhannes

Þorsteinn Jónsson leiddi hópinn inn í Fljótshlíð þar sem Drumbabót var skoðuð og sveitarfélagið bauð í hádegisverð á Eldstó sem að er jarðvangsfyrirtæki og Helga Ingadóttir sagði frá starfseminni þar. Þaðan var svo haldið áfram að Þorvaldseyri og á Skógasafn áður en haldið var í Mýrdalinn. 

Úttektarferlið er langt og strangt og hafa þau Berglind, Jóhannes og Sigurður lagt í mikla undirbúningsvinnu svo allt fari fram með sem bestum hætti. Niðurstaða úttektarinnar fæst svo að nokkrum mánuðum liðnum.