Fréttatilkynning:

Stefnt að útflutningi sorps frá Suðurlandi til brennslu

 Sveitarfélög á Suðurlandi áforma að senda sorp frá svæðinu utan til brennslu í evrópskum sorpbrennslustöðvum í framhaldi af þeirri ákvörðun SORPU að hætta að taka við sunnlensku sorpi til urðunar í Álfsnesi. Samhliða þessu eru aðgerðir hafnar til að auka flokkun úrgangs á upprunastað til að tryggja að auðlindir í úrganginum nýtist sem best.

 Frá árinu 2009 hefur óflokkaður úrgangur frá sveitarfélögum á Suðurlandi verið fluttur til urðunar í Álfsnesi í samræmi við samkomulag SORPU og Sorpstöðvar Suðurlands, sem gengið var frá í framhaldi af lokun urðunarstaðar Sunnlendinga í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi árið 2009. Síðustu misseri hefur móttaka úrgangsins verið háð skilyrðum af hálfu SORPU, m.a. um að Sunnlendingar leggi til urðunarstað fyrir hluta af þeim úrgangi sem til fellur á höfuðborgarsvæðinu. Leit Sunnlendinga að urðunarstað hefur ekki enn borið árangur og því telja forsvarsmenn SORPU að forsendur samkomulagsins séu brostnar.

 Sorpstöð Suðurlands er byggðasamlag sveitarfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum, en á því svæði búa um 20 þúsund manns. Endalok samkomulagsins um urðun í Álfsnesi þýðir að finna þarf nýjan farveg fyrir óflokkaðan úrgang frá svæðinu. Þar sem enginn urðunarstaður er á Suðurlandi og urðunarstaðir í öðrum landshlutum að mestu fullnýttur, varð niðurstaðan sú að útflutningur á þessum hluta úrgangsins væri vænlegasti kosturinn, þrátt fyrir kostnaðarauka sem því fylgir. Nægur markaður er fyrir orkuríkan úrgang í sorporkustöðvum í Evrópu, en brennsla í slíkum stöðvum hefur það fram yfir urðun að orkan úr úrganginum nýtist og kemur í stað orku úr jarðefnaeldsneyti. Athuganir benda til að kolefnisspor útflutningsins sé hverfandi miðað við þann ávinning sem fæst með orkunýtingunni.

 Sunnlendingar hafa þegar ráðist í ýmsar úrbætur í flokkun úrgangs og ætlunin er að ganga enn lengra í þeim efnum í tengslum við útflutning óflokkaða hlutans. Þannig hefur sérsöfnun lífræns úrgangs þegar verið tekið upp í meirihluta sveitarfélaga á svæðinu og verður tekin upp innan hálfs árs í þeim sveitarfélögum sem eftir standa. Jafnframt verður gert átak í sérsöfnun annars endurvinnsluefnis, einkum pappa og plastumbúða.  Þessar aðgerðir þurfa jafnt að taka til heimila, stofnana, fyrirtækja, frístundabyggða, ferðamanna og annarra sem málið snertir.  Markmiðið með þessu er að hámarka nýtingu auðlinda í úrganginum og lágmarka það magn sem senda þarf utan til brennslu.

 Ljóst er að undirbúningur útflutningsins tekur nokkra mánuði, þar sem afla þarf viðeigandi leyfa og koma upp tilteknum tækjabúnaði til að meðhöndla úrganginn áður en hann er sendur út. Á vegum Sorpstöðvar Suðurlands er nú unnið að bráðabirgðalausnum til að tryggja viðunandi meðhöndlun úrgangsins þar til útflutningur hefst, sem vonir standa til að verði eigi síðar en 1. júlí nk. Jafnframt verður unnið áfram að leit að urðunarstað á Suðurlandi, en með aðaláherslu á úrgang sem fellur til innan svæðisins.

Sorpstöð Suðurlands bs. 8. janúar 2019