Um miðjan september var leitað til íbúa og óskað eftir tillögum að heitum fyrir 3 nýjar götur á Hvolsvelli og svo 2 götur á Ytri Skógum.

Fjölmargar tillögur bárust og er íbúum þakkað kærlega fyrir þátttökuna.

Dæmi um tillögur fyrir göturnar á Hvolsvelli eru t.d.: Unnarstígur, Hildigunnartún, Akurgerði, Kirkjugerði, Nínutún,  Blesártún, Lyngbakki, Garðabraut og Bólgarðar. Dæmi um tillögur fyrir götuna á Ytri Skógum eru t.d.: Skólabraut, Skógastígur, Kvernuvegur, Steinbogavegur, Tjaldrimi, Þrastargata og Lóuvegur.

Á 270. fundi sveitarstjórnar þann 8. október sl. voru tillögurnar teknar fyrir eftir að Skipulagsnefnd fjallaði um þær á sínum fundi og ný götunöfn voru samþykkt. Það var sannarlega ljóst að íbúar voru nokkuð sammála um að göturnar á Hvolsvelli ættu að heita eftir konum úr Njálu enda þykir aðeins halla á hlut kvenna í götuheitum í þéttbýlinu. Hinar ýmsu útgáfur af heitum tengdum þeim Bergþóru og Hallgerði komu fram en á endanum var eftirfarandi ákvörðun tekin.

Á Hvolsvelli mun gatan fyrir ofan Gunnarsgerði fái heitið Bergþórugerði, gatan fyrir ofan Króktún fær heitið Hallgerðartún og svokallaður ofanbyggðarvegur fær heitið Akurbraut.

Á Ytri Skógum fær gata við Héraðsskólann heitið Skólavegur en einnig var ákveðið að gatan við heimavistina muni fá nafnið Vistarvegur.

Gatnagerð á Hvolsvelli gengur einstaklega vel, veðrið hefur verið með besta móti þannig að verktakarnir hafa getað unnið nær sleitulaust frá byrjun. Í þessum áfanga verða 22 lóðir í boði, lóðirnar eru hluti af götunni sem nú hefur fengið nafnið Hallgerðartún. Af þessum 22 lóðum eru 21 einbýlishúsalóð og 1 raðhúsalóð. Lóðirnar eru stjörnumerktar á kortinu hér fyrir neðan.

Yfirlitsmynd frá því í september - Sigurður Jónsson tók þessa mynd

Vegurinn séð frá Nýbýlavegi.