Talsvert hefur verið kvartað yfir lausagöngu hunda í þéttbýlinu upp á síðkastið og vill sveitarfélagið minna á að lausaganga hunda er bönnuð í þéttbýlinu og skulu eigendur eða aðrir sem fara út með hunda ávallt hafa þá í taumi. Rangárþing eystra vill beina því til hundaeigenda að huga sérstaklega að þessu í nálægð hesthúsahverfisins og þar sem börn eru að leik.

Í samþykktum um hunda- og kattahald í Rangárþingi eystra segir:

Hundur skal aldrei ganga laus á almannafæri, heldur vera í taumi í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum. Hundaeigandi skal gæta þess, eftir því sem framast er unnt, að hundur hans valdi ekki óþrifum, hættu eða raski ró manna eða verði mönnum til óþæginda á neinn annan hátt.

Einnig segir: 

Hundar á lögbýlum mega ganga frjálsir á landareign eigenda sinna. Að öðru leyti skulu slíkir hundar háðir ákvæðum þessarar samþykktar. Skylt er bændum á lögbýlum og eigendum hunda sem nefndir eru í 1. gr. hér að framan að sjá til þess að hundar þeirra séu ekki lausir á almannafæri innan þéttbýlis.

Samþykktin í heild má finna hér: Samþykkt um hunda- og kattahald.