Þriðjudaginn 12. október mætti galvaskur hópur nemenda í 7. og 8. bekk Hvolsskóla að Sólheimajökli til að mæla hversu mikið hann hefur hopað milli ára. Venjan er að þetta sé hlutverk 7. bekkjar en árið 2020 var ekki mögulegt að fara í formlega mælingu svo að þáverandi 7. bekkur fékk að fara með núna. Mælingin frá 2020 var tekin þegar Stjörnu Sævar fór með hóp af nemendum að skoða jökulinn.

Við mælinguna í dag voru með í för þau Sigrún Stefánsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og Jón Stefánsson, fyrrum verkefnastjóri Grænfánans við Hvolsskóla, en Jón hefur verið við mælingarnar frá upphafi.

Síðustu ár hefur Björgunarsveitin Dagrenning aðstoðað nemendurna við mælingar því jökulsporðurinn er nú úti í stækkandi lóninu og aðeins hægt að nálgast með bát. Þegar byrjað var að taka mælingarnar var hægt að ganga þurrum fótum að jökulsporðinum svo þessi breyting sýnir vel hversu mikið jökullinn hefur hopað.

Að þessu sinni mældist hop jökulsins milli ára 11 metrar og hefur Sólheimajökull hopað um 408 metra frá því að mælingarnar hófust haustið 2010.