Eitt af árlegum jólaverkum áhaldahúsmanna er að setja upp jólatré á miðbæjartúninu. Í morgun var komið að því að fella tréð en það voru þau Kristófer Pálsson og Svava Jensdóttir, Stóragerði 18, sem að gáfu myndarlegt tré úr garðinum sínum og er þeim þakkað kærlega fyrir.

Þetta jólatré er svo sett upp á miðbæjartúninu, milli Hvols og Landsbankans og sjá áhaldahúsmenn um að skreyta það jólaljósum. Þar sem ekki er skynsamlegt að stefna saman hóp af fólki að þessu sinni verður ekki hátíðleg athöfn þegar kveikt er á ljósunum í ár en vonandi mun jólatréð gleðja íbúa og gesti sveitarfélagsins. Landsbankinn hefur stutt dyggilega við jólastundina síðastliðin ár og vonumst við til að halda því samstarfi áfram að ári.

Guðrún Björk Benediktsdóttir, umhverfis- og garðyrkjustjóri, tók þessar skemmtilegu myndir í morgun.