1. grein Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri.

Rangárþing eystra er á góðri vegferð í innleiðingu barnvæns sveitarfélags. Nú er kortlagningu verkefnisins lokið, en það þýðir að búið er að taka stöðuna á réttindum barna eins og hún er í sveitarfélaginu í dag. Stýrihópur verkefnis hefur fyllt út gátlista, spurningakannanir hafa verið sendar á starfsfólk sveitarfélagsins og eins hafa börn og ungenni frá 10 ára aldri svarað spurningakönnunum. Elstu tvær deildir leikskólans héldu leikskólaþing og í tvígang hefur verið haldið barna- og ungmennaþing.

Um þessar mundir er unnið að greinargerð um stöðumatið og samhliða því er verið að vinna að aðgerðaráætlun. Aðgerðaráætlunin segir til um hvaða málefni verða sett í forgang.

Næstu skref eru þau að kynna verkefnið betur aðallega fyrir börnunum sjálfum og þeim sem vinna með börnum og taka ákvarðanir tengdar þeim.

Einn þáttur í aðgerðaráætluninni er að auka þekkingu íbúa sveitarfélagsins á réttindum barna og munu því á næstu vikum birtast greinar úr Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna íbúum til kynningar og fróðleiks.