Það var dulmögnuð stemning í matsal Hvolsskóla í morgun þegar elsta stig mætti til leiks. Næstu tvær vikurnar eru nefnilega þemadagar á  og að þessu sinni er þemað Harry Potter. Í morgun mættu nemendur til að hefja vikuna, Birna, skólastjóri, fór yfir nokkrar reglur og flokkunarhatturinn sá um að skipta þeim niður á heimavistirnar fjórar, Gryffendor, Slytherin, Hufflepuff og Ravenclaw. Eftir að athöfnin hafði farið fram fór hver hópur með sínum yfirprófessor á sína heimavist og verður viðkomandi stofa þeirra aðsetur næstu tvær vikurnar. Nú tekur við keppni á milli heimavista og safna þær stigum með ýmsum hætti, t.d. skreytingum á heimavist, framkomu, í kappleikjum og fl. Heimavistarstjórar og yfirprófessorar eru þau Ólafur Elí Magnússon, Guri Hilstad Ólason, Line Nørgaard og Þórunn Óskarsdóttir.  Námið situr ekki á hakanum meðan á þemadögum stendur en allar námsgreinar verða litaðar af þemanu með skemmtilegum hætti. 

Anna Kristín Guðjónsdóttir stýrir þessu skemmtilega verkefni og verður gaman að sjá afraksturinn þann 16. febrúar þegar þemaverkefnið klárast.