Alþjóðlega verkefnið Göngum í skólann (www.iwalktoschool.org) var sett í Hofsstaðaskóla í Garðabæ í morgun að viðstöddum góðum gestum. Hafdís B. Kristmundsdóttir skólastjóri Hofsstaðaskólabyrjaði á því að bjóða nemendur og gesti velkomna. Þráinn Hafsteinsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ tók síðan við og flutti stutt ávarp og stjórnaði dagskrá. Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, flutti skemmtilegt ávarp þar sem hún kenndi viðstöddum 3 tákn á táknmáli, göngum, skóli og heim, en það vakti mikla lukku.

Göngum í skólann er sett í þrettánda sinn og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti.
Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt og fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en alls eru 62 skólar skráðir til leiks í ár.

Hvolsskóli tekur þátt og við hvetjum skólabörn til að ganga í skólann.