Gámavellinum á Hvolsvelli hefur nú verið breytt í grenndarstöð samkvæmt bókun sveitarstjórnar þann 12. desember síðastliðinn. 

Nú er einungis hægt að losa sig við umfram heimilisúrgang á grenndarstöðinni á Hvolsvelli. 
Þar er tekið við almennu heimilissorpi, pappa, plasti, lífrænum úrgangi, gleri og áli.

Bókun sveitarstjórnar er svohljóðandi:

Á vordögum 2019 óskaði stjórn Sorpstöðvar Rangárvallasýslu eftir afstöðu allra aðildarsveitarfélaga um hvernig þjónustu við gámasvæði verði háttað til framtíðar. Unnið hefur verið að málinu og liggja nú fyrir upplýsingar um kostnað.
Hallarekstur vegna sorpmála í Rangárþingi eystra árið 2018 var um 30.000.000 kr  og útlit fyrir svipað árið 2019. Stór hluti þess hallareksturs kemur til vegna kostnaðar við gámasvæði á Hvolsvelli. Fyrirsjáanlegt er, vegna lélegrar flokkunar að hækkun urðunarkostnaðar rangt flokkaðs sorps af gámasvæðinu verði rúmar 6.000.000 kr árið 2020 að öllu óbreyttu.
Erfiðlega hefur gengið að fá notendur til að flokka rétt í gámana og veldur það gríðarlegum kostnaði við rekstur svæðisins þar sem að stór hluti þess úrgangs fer til urðunar en ekki til endurvinnslu sem er bæði mun ódýrari og umhverfisvænni kostur. Einnig hefur borið talsvert á því að atvinnurekendur hafa verið að nýta gámavöllinn.
Á grundvelli þessa viðvarandi háa kostnaðar auk umhverfissjónarmiða samþykkir sveitarstjórn að breyta þjónustustigi á gámasvæðinu á Hvolsvelli í svo kallaða grenndarstöð, þar sem verður tekið við heimilissorpi, pappa, plasti, gleri og áli líkt og á öðrum grenndarstöðvum innan svæðis Sorpstöðvar Rangárvallasýslu. Móttaka á öðrum úrgangi sem og úrgangi atvinnurekenda mun eftir sem áður fara fram á Strönd. Mikilvægt er að opnunartími og þjónusta á Strönd verði bætt til muna samhliða þessari breytingu.
Samþykkt samhljóða.

Lesa má meira um ákvörðun sveitarstjórnar og gámavöllinn í fréttabréfi sem nýlega var sent út.

Íbúum er bent á sorpstöðina á Strönd ef losa á allan annan úrgang en heimilissorp en búið er að rýmka opnunartíma þar til að koma til móts við íbúa. 

Opnunartíma á Strönd má nálgast hér.