Bókun sveitarstjórnar vegna fyrirhugaðs frumvarps um innflutning á hráu kjöti.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra lýsir yfir vonbrigðum sínum með framkomið frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Landbúnaður er ein af grunnstoðum atvinnulífs í Rangárþingi eystra sem nauðsynlegt er að standa vörð um. Með breytingum á ofangreindum lögum er verið að tefla í tvísýnu lýðheilsu þjóðarinnar, ógna hreinleika íslenska búfjárstofnsins auk þess sem grafið er undan fæðuöryggi Íslendinga.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hvetur íslensk stjórnvöld til að kanna til hlítar hvort ekki megi endurskoða viðkomandi ákvæði innan EES samningsins með það að markmiði að sækja um undanþágu fyrir Ísland vegna sérstöðu landsins m.a. með tilliti til lítillar notkunar á sýklalyfjum í landbúnaði og alþjóðlegra skuldbindinga hvað varðar verndun íslenskra búfjárkynja.

Sveitarstjórn gagnrýnir einnig hversu skammt á veg undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða virðist vera kominn og styður framkomnar kröfur um að innflutt kjöt og egg verði ekii leyst úr tolli fyrr en Matvælastofnun hefur staðfest með sýnatöku að ekki séu sýklalyfjaónæmar bakteríur til staðar í viðkomandi vörum.