8. júní sl. spilaði hljómsveitin Dúmbó og Steini í Hvolnum á Hvolsvelli og hélt uppi frábærri stemningu. Þeir tónleikar voru í tilefni 80 ára afmælis Hvolsvallar en einnig vegna 50 ára afmælis hljómsveitarinnar. Þeir sem að misstu af dansleiknum í Hvolnum eða vilja rifja aftur upp danstaktana geta séð þá félaga á tónleikum í Hörpu þann 14. september nk.

Eftirfarandi fréttatilkynning fylgir tónleikunum:


DÚMBÓ og STEINI
Um þetta leyti fyrir fimmtíu árum fékk fimmtán ára piltur upphringingu frá 
skólabróður með boð um að reyna sig sem söngvara með tveggja ára gamalli hljómsveit sem var verið að endurskipuleggja. Markmiðið var að komast á sveitaballamarkaðinn í Borgarfirðinum. Piltur sló til og varð strax mjög vinsæll.
Fjórum árum síðar var hann orðinn einn dáðasti dægurlagasöngvari landsins og 
hljómsveitin sömuleiðis ein sú allra vinsælasta.


Þessi piltur var auðvitað Sigursteinn Hákonarson, alltaf kallaður Steini, og nú ætlar hann og hljómsveitin, sem er að sjálfsögðu Dúmbó sextett, að halda upp á 50 ára söngafmæli Steina og sömuleiðis 50 ára afmæli Dúmbó sextetts með tónleikum í Eldborgarsal Hörpu þann 14. september nk. Tónleikarnir hefjast kl. 20. - Þar munu Dúmbó sextett og Steini rifja upp fullt af skemmtilegum lögum frá fyrstu árunum sínum og Glaumbæjarárunum og einnig lög af hljómplötunum sem þeir félagar gáfu út síðar.  


Í þessi fimmtíu ár hefur Steini verið nánast stöðugt syngjandi með hljómsveitum og sönghópum og verið starfandi í Kór Akraneskirkju í áratugi, iðulega sem einsöngvari. Það starf allt væri efni í nokkra tónleika.


Dúmbó og Steini komu síðast fram opinberlega í Bíóhöllinni á Akranesi og á Hvoli, Hvolsvelli, þar sem þeir léku og sungu fyrir dansglaða langt fram eftir nóttu. Þá voru liðin tuttugu og fimm ár frá því að þeir félagar stigu síðast á svið saman. 


Það má segja að þetta sé kærkomin endurkoma en jafnframt kveðjutónleikar Dúmbó & Steina.


Miðasala hafin í Hörpu og á miði.is.  --  Sími í miðasölu: 528 5050