Ný skýrsla er komin út um erlenda ferðamenn í Rangárþingi eystra 2008 - 2017. Það er fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. sem sá um gerð skýrslunnar.

Skýrsluna í heild sinni ásamt skýrslum fyrri ára má sjá hér.

 

Helstu niðurstöður 2008 - 2017

Erlendir ferðamenn í Rangárvallasýslu

Áætlað er að 1.381 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið í Rangárvallsýslu árið 2017 en 230 þúsund árið 2008, sem sexföldun. Þetta þýðir að 69% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu í Rangárvallasýslu en 46% þeirra árið 2008. Samkvæmt því hefur Rangárvallasýsla aukið sinn hlut um 50% á tímabilinu. Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum gestum sem komu í sýsluna hafi fjölgað úr 167 þúsund árið 2008 í 569 þúsund árið 2017, eða 3,4 falt Hins vegar fjölgaði erlendum vetrargestum í sýslunni mikið meira á sama árabili, úr 63 þúsund í um 812 þúsund, eða um 13 falt. Mest varð þó fjölgunin yfir fjóra helstu vetrarmánuðina, janúar, febrúar, nóvember og desember, eða 17 föld, úr 16 þúsund árið 2008 í 275 þúsund árið 2017. Þessar niðurstöður sýna ótvírætt að ferðamannatíminn í Rangárvallasýslu hefur lengst jafnt og þétt og að nú koma ferðamenn þangað einnig í miklu mæli allt árið. Ferðaþjónusta er því orðin afar öflug heilsársatvinnugrein á svæðinu.

Erlendir ferðamenn að Hvolsvelli, Þórsmörk, Seljalandsfossi og Skógafossi

Áætlað er að árið 2017 hafi 236 þúsund erlendir ferðamenn haft einhverja viðkomu á Hvolsvelli (sami fjöldi og 2016) en 56 þúsund árið 2008, sem er 4,2 földun. Þetta þýðir að 12% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 stoppuðu á Hvolsvelli en 11% þeirra árið 2008. Árið 2008 komu 61% erlendra gesta á Hvolsvelli þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 39% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður 37% en vetrargesta upp í 63%.

Áætlað er að árið 2017 hafi 135 þúsund erlendir ferðamenn farið í Þórsmörk en 39 þúsund árið 2008, sem er 3,5 földun. Þetta þýðir að 6,7% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 fóru í Þórsmörk en það hlutfall var 8% árið 2008. Árið 2008 komu 70% erlendra gesta í Þórsmörk þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 30% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður 55% en vetrargesta upp í 45%.

Áætlað er að árið 2017 hafi 815 þúsund erlendir ferðamenn komið að Seljalandsfossi en 98 þúsund árið 2008, sem er 8,3 földun. Þetta þýðir að 41% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu að Seljalandsfossi en 20% erlendra ferðamanna árið 2008. Samkvæmt því hefur Seljalandsfoss tvöfaldað hlutdeild sína í komum erlendra ferðamanna á tímabilinu. Árið 2008 komu 67% erlendra gesta að Seljalandsfossi þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 33% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður 38% en vetrargesta upp í 62%.

Áætlað er að árið 2017 hafi 1.080 þúsund erlendir ferðamenn komið að Skógafossi en 147 þúsund árið 2008, sem er 7,3 földun. Þetta þýðir að 54% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2017 komu að Skógafossi en 29% þeirra árið 2008. Samkvæmt því hefur Skógafoss aukið hlutdeild sína í komum erlendra ferðamanna um 86% á þessu árabili. Árið 2008 komu 68% erlendra gesta að Skógafossi þangað að sumarlagi en 32% hina níu mánuði ársins. Árið 2017 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður 42% en vetrargesta í 58%.