Í mars sl. var hafist handa við að setja saman lista yfir íslensk öndvegisrit á vegum þáttarins Kiljunnar á RÚV. Fólk var beðið um að setja niður 20 - 30 íslensk bókmenntaverk, alveg sama hvers konar bókmenntaverk en eina skilyrðið var að verkið myndi flokkast sem grundvallarrit - þáttur í íslenskri menningu.

Úrslit í valinu voru birt í gær og í efsta sæti trónir Brennu-Njálssaga, en höfundur hennar er ókunnur. Í öðru og þriðja sæti eru skáldsögurnar Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan sem eru báðar eftir Halldór Laxness. 

Við getum því verið stolt að búa hér á Söguslóðum þessa helsta bókmenntaverks Íslendinga samkvæmt listanum og að Brennu-Njálssögu sé gerð svona góð skil bæði í Sögusetrinu og með Njálureflinum.

Á aðallistanum eru samtals 150 verk en aðeins 15 bækur eru eftir konur. Sagan Jón Oddur og Jón Bjarni, eftir Guðrúnu Helgadóttur, er efst þeirra, eða í 14. sæti.
Á listanum er jafnframt að finna 20 ljóð, 10 ævisögur og 12 barnabækur.
Þátttakan í vali Kiljunnar, bókmenntaþætti Egils Helgasonar, sem er sýndur á RÚV, var afar góð, en alls bárust 620 svör. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá upphafsmyndina í Njálureflinum.

Hér má sjá heildarlista þeirra verka sem valin voru ásamt nokkrum flokkum: Listi yfir bestu bækurnar - Kiljan
Þáttur Kiljunnar þar sem greint er frá úrslitunum: http://www.ruv.is/sarpurinn/kiljan/09042014-0