Leikritið byggir á hinni sívinsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur Ástarsaga úr fjöllunum sem fjallar um tröllskessuna Flumbru og tröllastrákana hennar átta. Leikgerð og söngtextar eru eftir Pétur Eggerz, sem einnig annast leikstjórn, en höfundur tónlistar er Guðni Franzson. Það eru leik- og söngkonan Margrét Pétursdóttir og leikarinn og tónlistarmaðurinn Valgeir Skagfjörð sem leika sýninguna. Leikmynd og búningar eru eftir Messíönu Tómasdóttur. 



Leiksýningin á sér nokkra forsögu, en fyrir um 10 árum samdi Guðni Franzson tónverk við texta Péturs Eggerz sem byggðu á Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðrúnu Helgadóttur. Guðni flutti verkið síðan með Sinfóníuhljómsveit Íslands á skólatónleikum í Háskólabíói auk þess sem það var flutt í Ríkisútvarpinu. Síðar hefur m.a. tónlistarhópurinn Caput flutt verkið ásamt söngvaranum Agli Ólafssyni í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi. Verkið hefur nú verið sniðið að flutningi með einum tónlistarmanni og leikara/söngvara. Aukið hefur verið á leikrænan þátt verksins frá því sem var í tónleikaútgáfunni, söngatriðum fjölgað og ýmis meðöl leikhússins nýtt til uppsetningarinnar. Hér má segja að saman fléttist aðferðir frásagnarleikhúss, söngleikja, brúðuleikhúss og hefðbundins leikhúss. 

Leikritið verður sýnt í Sögusetrinu, föstudaginn 5. apríl nk. kl. 15:00

Nánari upplýsingar má finna á vef Sögusetursins og á vef Möguleikhússins