Skógafoss er ein af fjölmörgum náttúruperlum okkar hér í Rangárþingi eystra og þúsundir ferðamanna heimsækja árlega til að skoða. Árið 2012 var áætlað að um 320 þúsund manns hefði komið að fossinum og daglega má sjá fjölda fólks á leið upp eða niður tröppurnar sem liggja með fossinum. Allmargir klífa því 527 tröppur upp á útsýnispallinn til að sjá fossinn betur sem og útsýnið.

Þorsteinn Jónsson skrifaði eftirfarandi pistil og tók myndir þegar hann var að vinna við fossinn ásamt ungmennum sem unnið hafa í áhaldahúsinu og í vinnuskólanum í sumar.

Ég átti þess kost að fara með hóp ungmenna úr héraði upp tröppurnar í sumar og það kom mér á óvart að 80 – 90% þeirra hafði aldrei farið upp tröppurnar að útsýnisstaðnum „Spönginni“ sem er fyrir miðri brekku, né komið á útsýnisstaðinn fyrir ofan fossinn. Fyrir mér er það eins og að hafa séð Vestmannaeyjar úr landi en aldrei komið þangað!
Eitt helsta kennileiti Akureyrar er kirkjan og er talið að kirkjutröppurnar þar séu 116 alls. Flestir láta sér ekki muna um að skokka þar upp. Við Skógarfoss eru tröppurnar 466. Tel ég þá hefðbundna leið eins og hún er hugsuð: fyrst farið að fossinum og þaðan upp timburtröppur að járntröppum alla leið á toppinn. Á leiðinni niður fer maður hinsvegar aðeins 437 tröppur, þ.e. niður járntröppurnar og svo tröppustíginn sem lagður var í sumar. Alls eru þarna 527 mismunandi tröppur.
Þetta mannvirki var ekki reist á einum degi í viðkvæmri náttúrunni og því er ekki lokið. Í sumar hefur verið unnið við að þétta járntröppurnar, borin möl í timburtröppurnar og þær lagfærðar, gengið frá við útsýnispall og smíðaður nýr tröppustígur að járntröppur. Nú telst leiðin vera skammlaus og boðleg þeim sem vilja og hafa þor til að prufa, en vinsamlegast farið þið varlega.


Á myndunum má m.a. sjá þegar krakkarnir í vinnuskólanum báru möl í fötum á milli sín til að setja í tröppurnar, Jón Jónsson í tröppuvinnu með strákunum í áhaldahúsinu og mynd af öllum tröppunum 527.