Fundargerð 20. fundar Fræðslunefndar,
fimmtudaginn 21. ágúst 2014 kl 17:00 

Fundur haldinn í Fjarfundastofu 
Mættir eru: Arnheiður Dögg Einarsdóttir, Daníel Gunnarsson, Tómas Grétar Gunnarsson, Hildur Ágústsdóttir, Pálína Björk Jónsdóttir, Unnur Óskarsdóttir, Árný Jóna Sigurðardóttir, Birna Sigurðardóttir og Gyða Björgvinsdóttir sem ritaði fundargerð.
Dagskrá:
Ísólfur Gylfi Pálmason setti fund kl. 17 og bauð nefndarmenn velkomna og bað viðstadda að kynna sig.  
1. Fræðslunefnd skiptir með sér verkum.
Tillaga um að Arnheiður Dögg verði formaður nefndarinnar, það var samþykkt samhljóða. Tillaga um að Daníel Jónsson verði varaformaður nefndarinnar, það var samþykkt samhljóða. Tillaga um að Gyða Björgvinsdóttir verði ritari nefndarinnar, það var samþykkt samhljóða.
Nefndarmenn skrifuðu undir trúnaðarskjal. 

2. Erindisbréf fræðslunefndar 
Nefndin fór sameiginlega yfir erindisbréf fræðslunefndar sem samþykkt var árið 2010. Lögð voru fram drög að nýju erindisbréfi en sveitarfélagið vinnur nú að samræmingu erindisbréfa og er umsögn nefndarinnar um  erindibréf því frestað til næsta fundar. Fram kom að spennandi gæti verið fyrir nýja nefnd að heimsækja bæði skólann og leikskólann þegar starfið þar er í fullum gangi. 

3. Fundaáætlun vetrarins 
Lögð var fram fundaáætlun fram á næsta vor. 
Tillaga var um að fundirnir byrji framvegis kl. 16:30.


4. Starfið í Hvolsskóla, Birna Sigurðardóttir í forföllum Sigurlínar Sveinbjarnardóttur
Í vetur verða 238 nemendur í skólanum og 52 starfsmenn. 
26 nemendur hefja skólagöngu í 1. bekk þetta árið.
Skólaakstur og samfella verða með svipuðu sniði og undanfarið ár. 
Verið er að ráða í þær stöður sem enn vantar í.
Skólaárið verður aftur 170 dagar.
Áherslubreytingar verða í vali nemenda á elsta stigi.
Grænfánadagurinn verður haldinn hátíðlegur á föstudaginn í næstu viku.
Fjallgöngur eru fyrirhugaðar á öllum stigum skólans í heilsuvikunni.
ART námskeiði lauk í dag, en þar voru 8 kennarar frá skólanum. 
Samfellan hefst 1. september.
Spurt var um svigrúm til skólaþróunar , þ.e. hvort skólinn hafi fjármagn og aðstæður til að styðja við endurmenntun kennara. Því var svarað til að skólinn kæmi mikið til móts við kennara í þessum efnum. Skólaþjónustan bíður upp á mörg spennandi erindi í vetur.
Einnig var spurt um tölvuvæðingu við skólann. Skólinn á orðið 6 Samsung spjaldtölvur, 3 I-pad og 3 Smart board töflur.
5 nýjar tölvur voru keyptar inn á elsta stig. Þrátt fyrir að tölvustofan sem staðsett er á miðstigi hafi verið minnkuð, hefur tölvum ekki verið fækkað.

5. Starfið í Leikskólanunum Örk, Árný Jóna Sigurðardóttir
Sumarönnin er enn í gangi og því er hefðbundið vetrarstarf ekki byrjað. Breytingar eru í gangi, tvær elstu deildirnar hafa verið sameinaðar í eina stóra deild, þar sem verða tveir deildarstjórar. Nýja deildin heitir Stóri – Dímon og munu deildarstjórarnir skipta umsjónarnemendum á milli sín. 
Starfsdagur verður í leikskólanum á morgun, föstudag, þar sem línurnar fyrir veturinn verða lagðar. 
8 menntaðir leikskólakennarar starfa við skólann og einn er í námi. Tveir menntaðir leikskólakennarar eru að fara í nám í Upplýsingatækni hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Nemendur við skólann voru 99 í vor. 
4 starfsmenn leikskólans fara á ART námskeið í vetur.
Námskrá leikskólans er í góðum farvegi, þar stendur til að fá foreldra í samstarf. Stefnt er að því að námskráin verði tilbúin í nóvember. Þessi námskrá er unnin uppúr nýrri aðalnámskrá.

6. Bréf frá leikskólastjórnendum
Síðasta vor barst nefndinni bréf frá leikskólastjórnendum en þáverandi nefnd ákvað að vísa erindinu til nýrrar nefndar. Erindi bréfsins voru að kalla eftir stefnumörkun sveitarfélagsins, annars vegar hvað varðar vistun 12 mánaða barna og hins vegar hvað varðar hámarks vistunartíma barna og/eða breytingu á opnunartíma leikskólans.

Eins og fjöldinn er í leikskólanum núna, gengur að taka inn 12 mánaða börn. En um leið og fjölgar verður húsnæðið orðið of lítið. 
Í vistunarreglum leikskólans segir að 18 mánaða börn eigi að fá vistun.
Ef pláss er í leikskólanum eru 12 mánaða börn tekin inn.
Á leikskólanum hér eru börn tekin inn eftir afmælisdögum, leyfi fjöldi starfsmanna og húsnæðið það.

Nefndin óskar eftir því að sveitarfélagið marki sér stefnu í þessum efnum og setji það í Skólastefnuna.

Ósk leikskólastjórnenda er að opnunartími leikskólans sé frá 7:45 – 16:15. Í dag eru aðeins 7 börn í vistun frá kl. 16 – 17. Tveir starfsmenn þurfa að sinna þessum 7 börnum. Þar sem engin yfirvinna er greidd þarf að taka starfsmenn af deildum frá kl. 8 – 9, en þá er þörf fyrir allt starfsfólkið þar sem lang flest börnin mæta kl. 8 að morgni.

Fundarmenn voru almennt á því að æskilegt sé að setja reglur um hámarks vistunartíma en skiptar skoðanir á því hvort stytta eigi opnunartíma leikskólans. 

Ákveðið var að þetta mál yrði aftur tekið upp á næsta fundi, þann 15. september.


7. Staðan í gerð Skólastefnu Rangárþings Eystra
Arnheiður Dögg og Birna sögðu frá gerð Skólastefnunnar. Skólastefnan þykir á köflum helst til of ítarleg en samt vantar að draga fram meginatriðin og framtíðarsýn. 
Fræðslunefnd samþykkti að Arnheiður Dögg, Árný Jóna og Birna myndu hitta Arnar hjá Capacent um framhald vinnunnar við skólastefnuna. 

8. Val á elsta stigi grunnskólans, Birna Sigurðardóttir og Guðbjörg Júlídóttir
Birna og Guðbjörg deildarstjórar Hvolsskóla kynntu valið á elsta stigi.
En áherslubreytingar hafa verið gerðar á vali skólans. 4 vallínur eru í boði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk, þ.e. raungreinalína, listalína, málalína og íþróttalína. Eins hefur kennslustundafjöldanum í vali fjölgað frá því í fyrra. 
Framhaldsskólaáfangar verða í boði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk, í íslensku, stærðfræði og ensku. Áhugi er fyrir því af hendi skólans að fara í samstarf við t.d. tónlistarskólann, björgunarsveitina og atvinnulífið almennt. Umræður spunnust um mat á vali og hvort þetta fyrirkomulag virki sem hvatning fyrir nemendur. 
Valið verður kynnt fyrir foreldrum í næstu viku og upp úr því velja nemendur.

9. Kynning á samfellustarfi vetrarins, Ólafur Örn Oddsson
Ólafur Örn kynnti drög að samfellutöflu.
Unnið er að því að efla fimleikadeildina. Bæklingur með greinargóðum upplýsingum verður sendur heim og samfellustarfið hefst svo mánudaginn 1. september.
Spurt var um skráningar í samfellutímana, þ.e. hvort þjálfarar merki við mætingar. Þjálfarar merkja við og Ólafur Örn fer yfir þær skráningar á þriggja til fjögurra vikna fresti. Ólafur Örn hnippir þá í viðkomandi þjálfara og honum er uppálagt að hringja heim. 



10. Kynning á starfi og vetrardagskrá Félagsmiðstöðvarinnar Tvistsins, Þröstur Freyr Sigfússon
Þröstur kynnti starf komandi vetrar og lagði fram dagatal Tvistsins fyrir skólaárið 2014 – 2015 og kynnti viðburði og þær smiðjur sem verða í boði. Opnunartímar verða svipaðir og í fyrra. Tvo daga í viku er opið fyrir miðstig í tengslum við stundatöflu samfellunnar. Opnunartímar verða auglýstir á heimasíðu skólans og stefnt er að því að senda upplýsingar heim með nemendum.
Einu sinni í mánuði er stefnt að því að ungmenni 16 ára og eldri hafi tíma í félagsmiðstöðinni, þetta er gert í samvinnu við Ungmennaráð Rangárþings eystra. 

Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 19:25