114. fundur Byggðarráðs Rangárþings eystra  haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hlíðarvegi 16, Hvolsvelli, föstudaginn 24. ágúst 2012 kl. 08:10

Mætt:   Kristín Þórðardóttir, Lilja Einarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, Ingibjörg Erlingsdóttir, Ágúst Ingi Ólafsson, skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð og  Guðlaug Ósk Svansdóttir, formaður byggðarráðs sem setti fund og stjórnaði honum.

Hún leitaði eftir athugasemdum við boðun fundarins en engar komu fram.

        

Dagskrá:

Erindi til byggðarráð

  1. Hestamannafélagið Sindri, bréf dags. 26.07.12, beiðni um styrk.

    Samþykkt að veita styrk kr. 50.000,-

  2. Drög að umhverfisstefnu Rangárþings eystra fyrri umræða.

    Drögunum vísað til umsagnar umhverfisnefndar. Nefndinni falið að koma með tillögur að nánari útfærslu til að settum markmiðum stefnunnar verði náð.

  3. Lóðaumsókn dags. 09.08.12, Húskarlar ehf sækja um lóðina Ormsvöll 9, Hvolsvelli til byggingar á iðnaðarhúsi.

    Samþykkt.

  4. Bréf Leikfélags Austur-Eyfellinga dags. 12.07.12, umsókn um styrk.

    Samþykkt að veita styrk kr. 100.000,-

  5. Starfsleyfistrygging fyrir urðunarstaðinn á Strönd.

    Samþykkt að skrifa undir starfsleyfistryggingu.

  6. Erindi Kötlu jarðvangs dags. 20.08.12, ósk um framlag til kynningarmyndbandsins Uniqui Iceland.

    Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 270.000,-

  7. Ályktun vegna hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.



    Byggðarráð Rangárþings eystra hvetur ríkisstjórn Íslands til þess að endurskoða áform um skattahækkanir sem augljóslega munu hafa mjög alvarleg áhrif á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og þar af leiðandi bitna harkalega á atvinnulífi í sveitarfélaginu.

    Í Rangárþingi eystra, og Rangárvallasýslu almennt, er ferðaþjónusta, einn af grundavallaratvinnuvegum og eykst hlutur hennar sífellt. Fjölmörg fyrirtæki byggja afkomu sína á sölu gistirýma sem og annars konar þjónustu við ferðamenn. Áhugi á uppbyggingu nýrra gistirýma í sveitarfélaginu hefur gefið góða von og endurspeglað trú á bjarta framtíð, en hækkun virðisaukaskatts á gistingu úr 7% í 25,5% mun augljóslega setja slík áform í uppnám. Hótel og gistihús starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og hafa takmarkað svigrúm til þess að velta hækkunum sem þessum út í verðlagið með svo skömmum fyrirvara svo ekki sé minnst á skerta samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu með þeirri hækkun á verðskrá sem af fyrirhugaðri skattahækkun hlýst. Fyrirhuguð hækkun mun og leiða til lækkunar tekjuskattsgreiðslna í greininni og bent hefur verið á að veruleg hætta er á að hún muni leiða til aukinna undanskota og skila sér þannig í óheilbrigðara viðskiptaumhverfi.

    Byggðarráð bendir sérstaklega á þann fjölda fólks sem byggir framfærslu sína og fjölskyldna á störfum í ferðaþjónustu en fyrirhuguð hækkun virðisaukaskatts mun bersýnilega leiða til samdráttar og uppsagna starfsfólks. Í sveitarfélagi eins og okkar gætir áhrifa við hvert tapað starf.

    Ferðaþjónustan er ung atvinnugrein og ein af of fáum vaxtarbroddum flestra dreifðra byggða á landinu. Það góðæri sem nú er í ferðaþjónustunni ætti frekar að nýta til að leyfa þessum ungu fyrirtækjum að eflast og skjóta styrkari fótum undir rekstur sinn. Byggðarráð Rangárþings eystra hvetur ríkisstjórn Íslands til að skapa frekar skilyrði, með stöðugu skattaumhverfi, fyrir auknar fjárfestingar í atvinnugreininni sem skila sér í fjölgun starfa. Þannig aukast tekjur ríkisins með tilheyrandi áhrifum fyrir íbúa þessa lands.



    Ályktunin samþykkt samhljóða.

  8. Tillaga frá fulltrúum D-lista um endurreisn gamla bæjarins á Hamragörðum



    Við undirrituð leggjum hér með til að fylgt verði eftir umsókn sveitarfélagsins til Húsafriðunarnefndar þannig að hún falli ekki niður. Við leggjum til að nú þegar verði ráðist í áætlunargerð til að meta hversu miklum fjármunum þarf að verja til endurbyggingar bæjarins og hvernig verkinu megi áfangaskipta. Að lokinni þeirri áætlunargerð verði metið hvort ráðist verði í endurbætur eða bærinn rifinn, en ljóst er að af húsunum stafar orðið hætta fyrir gesti tjaldstæðisins vegna bágs ásigkomulags hans.



    Greinargerð



    Jörðin Hamragarðar ásamt mannvirkjum er í eigu sveitarfélagsins. Nú er svo komið að brýnt er að taka ákvörðun um framtíð gamla bæjarins. Húsin voru byggð 1908 og eru því komin þó nokkuð til ára sinna. Viðhaldi hefur því miður ekki verið sinnt sem skyldi.

    Í ár barst sveitarfélaginu styrkloforð upp á kr. 300.000,- frá Húsafriðunar¬nefnd til áætlunargerðar vegna endurbóta á húsnæðinu. Hins vegar hefur styrkurinn ekki verið greiddur út þar sem engin slík áætlun hefur borist frá sveitarfélaginu. Styrkloforð þetta fellur niður verði ekkert frekar aðhafst af hálfu sveitarfélagsins fyrir 1. desember n.k.

    Ljóst þykir að mikil prýði yrði af uppgerðum bæjarhúsunum sem gæfu og möguleika á frekari þróun ferðaþjónustu á staðnum, sem laðar æ fleiri gesti að á hverju ári með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir sveitarfélagið.



    Hvolsvelli, 21. ágúst 2012

    Elvar Eyvindsson

    Kristín Þórðardóttir



    Tillagan samþykkt. Byggðarráð telur mikilvægt að hafist verði handa við gerð deiliskipulags af Hamragörðum og nærliggjandi svæðum í samvinnu við landeigendur.



Fundargerðir nefnda Rangárþings eystra:

  1. Fjallskilanefnd Vestur-Eyjafjalla 16.08.12  

    Byggðarráð harmar að upprekstur á Almenninga skildi hafinn, án þess að ítala hafi verið ákveðin líkt og samþykkt sveitarstjórnar þann 20. júlí sl. kvað á um.

    Fundargerðin staðfest.

Fundargerðir samstarfs sveitarfélaga í Rangárvallasýslu:

  1. 57. fundur byggingarnefndar Rangárþings bs. 15.08.12



    Eftirtalin mál í fundargerðinni tilheyra Rangárþingi eystra:

    748-2012 Slyppugil, Rangárþingi eystra – Byggingarleyfi fyrir landvarðahúsi.

    749-2012 Sámsstaðir, lóð 13, Rangárþingi eystra – Stöðuleyfi fyrir gám.

    750-2012 Staðarbakki, Mýrbugur 10, Rangárþingi eystra – Byggingarleyfi fyrir gestahúsi.

    751-2012 Ósk um leyfi fyrir skilti sem afmarka jarðvanginn Kötlu Geopark. 



    Fundargerðin staðfest.

  2. 51. fundur skipulagsnefndar Rangárþings 19.07.12



    Eftirtalin mál í fundargerðinni tilheyra Rangárþingi eystra:

    336-2012  Ey 2, Rangárþingi eystra, deiliskipulag 3 íbúðarhúsalóða.

    337-2012  Kirkjuhvoll, Rangárþingi eystra, breyting á gildandi deiliskipulagi íbúðar-og þjónustusvæðis á Hvolsvelli.

    338-2012  Landeyjahöfn, Rangárþingi eystra, breyting á gildandi deiliskipulagi.

    339-2012  Straumur, Rangárþingi eystra, ósk um heimild til deiliskipulagsgerðar. 

    113-2010  Torfastaðir, Rangárþini eystra, deiliskipulag þriggja íbúðarhúsa. (breyting eftir auglýsingu)



    Samþykkt að fresta afgreiðslu á liðum 336-2012, deiliskipulag að Ey 2 og 337-2012 Kirkjuhvoll, breyting á gildandi deiliskipulagi.



    Bókun Kristínar Þórðardóttur fulltrúa D-lista



    Undirritaður fulltrúi D-lista greiðir atkvæði með frestun afgreiðslu þessa liðar fundargerðarinnar en lýsir að gefnu tilefni yfir undrun sinni á því að ætlunin hafi verið að afgreiða breytingu á deiliskipulagstillögu á Kirkjuhvolsreitnum án þess að fram hafi farið nokkur umræða um framtíðarskipan mála og stefnumótun sveitarfélagsins í öldrunarmálum. Í svari við fyrirspurn D-listans þann 6.október 2011 um hvað liði fyrirhugaðri stefnumótunarvinnu velferðarnefndar í málefnum Kirkjuhvols, var upplýst að velferðarnefnd hefði ekki fjallað formlega um málið, en að nefndarformaður og hjúkrunarforstjóri hafi tekið þátt í vettvangsferð haustið 2010. Ennfremur var upplýst að meirihluti sveitarstjórnar (þ.e.a.s. fulltrúar B-lista) hefði kynnt sér þá vinnu sem unnin hefði verið fyrir sveitarfélagið í tengslum við uppbyggingu á Kirkjuhvolsreitnum, m.a. átt fund með Búmönnum og skipulagsarkitekt og að endingu að leitað hefði verið til AÞS um að vinna að rekstaráætlun varðandi framtíðaráform sveitarfélagsins um uppbyggingu á Kirkjuhvoli og nánasta umhverfi.

    Engin tíðindi hafa borist af málinu síðan 6. október 2011; undirrituð hefur ekki orðið vör við að velferðarnefnd hafi fundað síðan 28. október 2010, að fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting (sem skipulagsnefnd hefur nú mælt með að verði auglýst) hafi verið rædd í sveitarstjórn, hvað þá kynnt sveitarstjórnarmönnum og öðrum hlutaðeigandi, svo sem eins og íbúum sveitarfélagsins né hefur afrakstur rekstaráætlunarvinnu AÞS verið kynntur sveitarstjórn og lýsi ég því um leið sárum vonbrigðum mínum með einkar ólýðræðisleg vinnubrögð meirihlutans í þessu stóra hagsmunamáli fyrir íbúa sveitarfélagsins í nútíð og framtíð.



    Kristín Þórðardóttir



    Svar meirihluta B-lista við bókun Kristínar Þórðardóttur



    Meirihluti byggðaráðs bendir á að um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða. Undanfarna mánuði hafa sveitarstjóri og oddviti unnið náið með hjúkrunarforstjóra Kirkjuhvols og atvinnuþróunarfélaginu að framtíðarsýn varðandi starfsemina á Kirkjuhvoli og  á Kirkjuhvols reit. Vinna þessi er m.a. unnin þar sem aukin eftirspurn er eftir þessari tegund húsnæðis og búsetu. Stefnt hefur verið að því að ljúka þeirri vinnu fyrir lok ársins 2012 og fyrirhugað  að kynna tillögurnar fyrir sveitarstjórn, starfsmönnum  Kirkjuhvols og íbúum sveitarfélagsins. Allar góðar tillögur eru vel þegnar í þessari vinnu.



    Fundargerðin staðfest.


Fundargerðir nefnda sveitarfélaganna í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu:

  1. 23. fundur félagsmálanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu 07.08.12

    Staðfest.

Fundargerðir samstarfs sveitarfélaga á Suðurlandi:

  1. 218. Stjórnarfundur Sorpstöðvar Suðurlands bs. 09.08.12
  2. 456. fundur stjórnar SASS 02.05.12
  3. 457. fundur stjórnar SASS 10.08.12

Mál til kynningar:

  1. Auglýsing um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga árið 2012

  2. Vegagerð ríkisins, bréf dags. 25.07.12, svar við úthlutun úr styrkvegasjóði 2012.

  3. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, bréf dags. 03.08.12, umsögn um samþykktir um hunda- og kattahald 2012.

  4. Sýslumaðurinn á Hvolsvelli, afrit af béfi  dags. 09.08.12, um skipan ítölunefndar.

  5. Samband íslenskra sveitarfélaga bréf dags. 06.07.12, nýsköpun í opinberum rekstri.

  6. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, afrit af bréfi til Bjarna Eiríks Sigurðssonar dags. 07.08.12, beiðni um kaup á ríkisjörðinni Eystri-Torfastöðum 2.  Frekari gögn varðandi þennan lið bárust eftir að fundargögn voru send út. Erindið verður tekið fyrir á næsta fundi sveitarstjórnar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00


Guðlaug Ósk Svansdóttir   

Kristín Þórðardóttir

Lilja Einarsdóttir    

Ísólfur Gylfi Pálmason

Ingibjörg Erlingsdóttir