sub-banner-image

Tölur og staðreyndir


Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur.

Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði.
 

Ferðaþjónusta í Rangárþingi eystra er í miklum blóma og fyrir gesti svæðisins er margt að sjá og gera.  Í sveitarfélaginu eru margar þekktari náttúruperlur eins og t.d. Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógarfoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru- og jarðfræðiminjar sem eru minna þekkt eins og Mögugilshelli sem talin er vera stærsti náttúrugerði móbergshellir í norður Evrópu og Drumbabót, þar sem finna má minjar um aldagamlan skóg. Auk þessa minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og gestum gefin kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt. Afþreying er af ýmsu tagi og hentar öllum aldurshópum, s.s. söfn, sýningar, sundlaugar, hestaleigur, áhugaverðar gönguleiðir, íþróttamiðsstöð, golf,  gallerí, veiði og margt fleira. Sex félagsheimili eru í sveitarfélaginu með aðstöðu fyrir ættarmót og aðra viðburði.

Rangárþing eystra er hluti af Kötlu UNESCO Global Geopark ásamt Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp.

 

Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitafélagsins og þar er stjórnsýslan. Helstu atvinnuvegir eru iðnaður, verslun og þjónusta. Byggð hófst á Hvolsvelli er Kaupfélag Hallgeirseyjar hóf þar verslun árið 1930.

Tölur af vef Hagstofu Íslands frá janúar 2017