Stórólfshvolskirkja

Staðsett á Hvolsvelli

Í dag er þar timburkirkja frá árinu 1930. Hún tekur um 120 manns í sæti. Árið 1955 var kirkjan máluð og skreytt af þeim Grétu og Jóni Björnssyni. Kirkjan á marga góða gripi, þar á meðal altaristöflu málaða af Þórarni B. Þorlákssyni frá árinu 1914, þar sem Jesús blessar börnin.

Heimild: Stórólfshvolskirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/storolfshvolskirkja_069.html]

 

Breiðabólstaður

Breiðabólstaður í Fljótshlíð hefur frá fornu fari verið talinn eitt af bestu brauðum landsins. Þá er átt við að á Staðnum, eins og Breiðabólstaðurinn er oft kallaður af heimamönnum, er prestssetur og áður fyrr fóru prestar helst ekki af staðnum nema til þess að taka við biskupsembætti.

Sá atburður átti sér stað á Bótólfsmessu 17. júní 1221 sem greinir frá í Sturlungu, að Oddaverjar fylgdu liði 300 saman og hittu Breiðbælinga fyrir við kirkjuna á Staðnum. Á einhverju höfðu þeir átt von því Björn bóndi, íklæddur pansara, var þar með sjö tugi manna til varnar. Ástæða deilna milli þessara aðila var m.a. sú að Steingrímur nokkur Skinngrýluson, Ísfirðingur, gerði um Loft í Skarði dansa marga og margs konar spott annað. Loftur þessi orti er hann reið í garð á Staðnum ásamt Sæmundi Jónssyni í Odda:

 

 ,,Hér fer Grýla

í garð ofan,

  ok hefir á sér

     hala fimmtán.“

 

Lyktir þessara 370 manna bardaga í kirkjugarðinum var að árásarmönnum tókst að leggja til Bjarnar með spjóti nokkru er hét Grásíða og Gísli Súrsson kvað hafa átt. Hvort hér er upphafið af sögunni um Grýlu skal ósagt, nóg er að sagan um Gilitrutt hafi gerst hér í Eyjafjöllum.

Kirkjan á Breiðabólstað var byggð árið 1912. Hún er krosskirkja, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni, samsvarar sér vel og er af mörgum talin með fegurstu kirkjum landsins. Ýmsa góða gripi á kirkjan og er hér sérstaklega nefndur kaleikur sá sem enn er í notkun. Sagan segir að eitt sinn var prestur að koma frá messu á Keldum og áði á grasbala. Hann var með kaleikinn með sér og lagði hann frá sér á þúfu, en þegar hann stóð upp var kaleikurinn horfinn, sama hvað leitað var. Einhverjum árum seinna var prestur enn á ferð og stoppaði eins og vant var á sama stað. Er hann var að búa sig til ferðar aftur, var kaleikurinn allt í einu ljóslifandi kominn. Var ráðið af þessu að álfar hefðu fengið hann lánaðan um tíma og sá ekki á honum á eftir, fyrir utan svartan blett einn í botni kaleiksins, sem er þar enn og næst ekki burt. Eftir þetta uppgötvaðist að kaleikurinn hafði lækningamátt. Um aldamótin 1900 flykktist fólk allstaðar af landinu heim á Staðinn til að leita sér heilsubótar með því að mæta í sunnudagsmessu og dreypa á kaleiknum.

Það er mjög skemmtilegt að ganga upp Flókastaðagil frá Breiðabólstað. Best er að leggja bifreiðinni við safnaðarheimilið og fylgja girðingu í vesturátt að gilinu. Þetta er ekki erfiður gangur eftir kindagötum, en ævintýraleg ferð að fara í með börn. Í gilinu er mikið fýlavarp. Efst í gilinu var uppistöðulón og rafstöð hér áður fyrr og var þá vinsælt að fara þangað á sumrin til að synda í lóninu. Þegar upp er komið er yfirleitt gengið beint í suður fram á brún fyrir ofan Staðinn. Þar eru bæjarrústir sem heita Háakot og sést þar vel yfir Staðarhverfið, Eyjahverfið og til Vestmannaeyja.


Hlíðarendi

U.þ.b. 14 kílómetrum frá Hvolsvelli er kirkjan á Hlíðarenda. Hún var reist 1897. Að innan setja þrjár helgimyndir eftir Ólaf Túbals helsta svip á kirkjuna, ásamt helgimyndum málaðar á veggina sem hann málaði einnig ásamt Jónda í Lambey.

Hlíðarendi er einn af aðalsögustöðum Njálu, en þar bjó Gunnar ásamt konu sinni Hallgerði, sem frægust er fyrir að neita honum um lokk úr hári sínu, svo hann mætti hnýta úr því nýjan bogastreng og varð það hans bani. Gunnar var heigður í Gunnarshaug og er hann talinn vera hóll ofan túns í norðaustur frá kirkjunni og þaðan má enn sjá hann ganga aftur, kátlegan með gleðibrag og kveða vísur. Frá kirkjunni er hægt að ganga yfir í  Nínulund í Nikulásarhúsum (ca.100 metrar). Þar var fædd Nína Sæmundson, ein af okkar frægustu myndhöggvurum, en eftir hana eru verk víða um heim. Í minningarreitnum hefur verið komið fyrir styttunni “Móðurást”. Hlíðarendi er merktur af Sögusetri og þar er mjög mikið gengið.

Einn helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi, Bjarni Thorarensen, var alinn upp á Hlíðarenda. Sem barn átti hann að hafa týnst í 3-4 daga. Hann fannst svo að lokum uppi á klettanöf hjá Merkjá og er sagan sú að hann hafi verið tældur þangað af huldufólki. Hann var svo hátt uppi að menn héldu fyrst að þetta væri örn, barnið með rauðu kollhúfuna.  Eins og sést af kveðskap Bjarna var Fljótshlíðin honum mjög hugleikin:

,,Á vori vænust meyja!

vafin öll í skart,

á sumri fríð húsfreyja!

flest hjá þér er þarft,

á hausti blíð sem móðir mæt,

á vetri fegurst línklætt lík,

lífs og dauð ágæt.”

 

Akureyjarkirkja

Akureyjarkirkja er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi.

Akureyjarsókn varð til 1912, þegar Voðmúlastaða- og Sigluvíkursóknir voru sameinaðar með kirkju í Akurey. Henni er þjónað frá Bergþórshvoli. Kirkjan var byggð úr timbri og vígð 1912.  Eftirmynd af Kristi og barninu eftir Carl Blochs, sem var máluð í kringum 1880, er altaristafla kirkjunnar. Þarna er líka félagsheimilið Njálsbúð frá 1954, sem einnig var barnaskóli sveitarinna.

Akureyjarkirkja er smíðuð eftir sömu teikningu og Grindavíkurkirkja frá 1909.

Þil var gert milli skrúðhúss og altaris á fimmta áratugnum en áður voru tjöld fyrir skrúðhúsinu. Árið 1962 var kirkjan klædd innan með texplötum, smíðaðir í hana lausir bekkir og litað gler sett í glugga.

Heimild: Akureyjarkirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/akureyjarkirkja_072.html]


Voðmúlastaðakapella

Voðmúlastaðakapella er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Hún er í Austur-Landeyjum og var vígð 1946 eftir kirkjuleysi á staðnum síðan 1912. Þá var ný kirkja risin á Akurey og sóknin var lögð til hennar.

Voðmúlastaðakirkja var lengstum útkirkja frá Krossi og helguð Pétri postula í katólskri tíð. Núverandi kirkja er nefnd kapella og er enn þá í Krosssókn.

Heimild: Voðmúlastaðakapella á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/vodmulastadakapella_0299.html]


Krosskirkja

Krosskirkja er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1850. Víðtækar endurbætur á kirkjunni fóru fram á árunum 1934, 1966 og 1971. Altaristaflan er frá 1650. Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga, Noregskonungi. Að Krossi var prestssetur fram að aldamótunum 1900.


Árið 1859 var Sigluvíkursókn í Vestur-Landeyjum lögð til Kross og sameinuð Voðmúlastaðasókn vorið 1912 með kirkju í Akruey. Prestsetrið var flutt að Bergþórshvoli og brauðið var kallað Krossþing eða Landeyjaþing til 1952.


Hönnuður er talinn vera Halldór Guðmundsson forsmiður í Strandarhjáleigu.


Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð en var síðar klædd bárujárni.

Árið 1934 var kirkjan klædd að innan með krossviði, smíðuð í hana hærri hvelfing en verið hafði, setuloft stytt, þil gert um altaristöflu og forkirkja þiljuð af framkirkju.

Altaristaflan í Krosskirkju er ein af mestu dýrgripum sveitafélagsins. Hún er frá árinu 1650, gjöf frá þeim Kláusi Eyjólfssyni og Níelsi Klementssyni. Taflan er þrískipt: miðmyndin sýnir upprisu Krists, hægri vængurinn hinn þjáða Krist, vinstri vængurinn er hinsvegar torkennilegri; Jesú Kristur í allri sinni dýrð, þar sem sverð gengur úr munni hans. Það mun þá vera sverð andans sem er Guðs orð eins og segir í bréfi Páls til Efesusmanna.

Heimildir: 1. Krosskirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/krosskirkja_071.html]

Hægt er að lesa umfjöllun fræðimannsins Þorsteins  Helgasonar á altaristöflunni í greininni ,,Sverð úr munni Krists á Krossi” Helgason í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2000-2001, bls. 143 (Reykjavík, 2003) [http://timarit.is/view_page_init.jsp?requestedFileType=Web%20display&isDisplayThumbnails=false&pdfView=FitH]


Stóra-Dalskirkja

Kirkja hefur að öllum líkindum verið í Stóra-Dal frá kristnitöku á bæ Runólfs goða. En fyrsta heimild um hana er að finna í kirkjuskrá Páls Jónssonar biskups.

 Kirkjan þjónar Stóra-Dalssókn sem er vestan Holtssóknar og nær frá og með Fit og Fornusöndum að Stóru-Mörk, auk Hólmabæja, vestan Markarfljóts. Prestakallið var síðan sameinað Holtsprestakalli 1867 og hefur verið þjónað þaðan síðan. Fram til ársins 1924 var Stóra-Dalskirkja bændaeign en eftir það afhent söfnuðinum.

Fyrsta timburkirkjan var byggð 1843 innan núverandi kirkjugarðs, og má glögglega sjá hvar hún stóð. Hún var svo rifinn og önnur járnklædd timburkirkja byggð á sama stað árið 1895, og stóð hún til ársins 1970. Þá var kominn tími á að reisa nýja kirkju. Henni var valinn staður sunnan kirkjugarðsins og var hún reist á árunum 1964 til 1969. Kirkjuna teiknaði Ragnar Emilsson arkitekt. Hún er ekki í hinum hefðbundna kirkjustíl, en samt sem áður mjög falleg og hlýleg. Sá sem var yfir smíðum hennar var Þorsteinn Jónsson frá Drangshlíðardal.

Kirkjan var síðan vígð 1969 af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi.

Altaristafla kirkjunnar er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara af altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík sem máluð var af Wegener 1847 og sýnir upprisuna. Taflan var áður í Voðmúlastaðarkirkju.

Heimild: Stóra-Dalskirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/161-stora-dalskirkja]


Ásólfsskálakirkja
Ásólfsskálakirkja er við samnefndan bæ, Ásólfsskála, í Skálakrók. Ásólfsskáli hefur verið kirkjustaður frá því 1888 þegar þriðja kirkjuna tók af í roki á prestsetrinu Holti, en á þeim tíma óð Holtsá um Holtshverfið og olli landspjöllum. Voru þá uppi áform um að flytja bæði prestsetrið og kirkjuna að Ásólfsskála en úr varð að aðeins kirkjan var flutt. Til að fá land undir kirkjuna á Ásólfsskála þurfti séra Björn Þorvaldsson í Holti að skipta á hálfu Svaðbæli, sem var eign kirkjunnar, við Þorvald Bjarnason á Núpakoti og í staðinn fékk prestjörðin Holt hálfan Ásólfsskála.

Kirkja hafði reyndar verið á Ásólfsskála á miðöldum helguð Ólafi Noregskonungi, en hún var niður felld um 1550.

Eftir að kirkja Holtssóknar var færð að Ásólfsskála var henni fenginn staður í kirkjugarðinum og má sjá í honum minningarstein þar sem altari gömlu kirkjunnar stóð. Þessi kirkja var byggð úr timbri og klædd bárujárni. Hún var felld 1952.

Um 1940 var gamla kirkjan farin að láta á sjá og mönnum þótti tímabært að byggja nýja og veglega kirkju. Úr varð að séra Jón M. Guðjónsson í Holti teiknaði nýja kirkju sem reisa skyldi utan við kirkjugarðinn.Kirkja þessi átti að vera með tveim turnum.

Ekki gekk sem skyldi með bygginguna því að fjárskortur olli því að aðeins var steyptur grunnur undir nýja kirkju 1944. Það var ekki fyrr en 1951 að skriður komst á málið og að þessu sinni var byggt eftir teikningum þáverandi húsameistara ríkisins, Einari Erlendssyni.

 Yfirsmiður var Sigurjón Magnússon í Hvammi, mikill hagleiksmaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það var svo árið 1955 að nýja kirkjan var vígð af Ásmundi Guðmundssyni biskupi.

Kirkjan tekur um 140 manns í sæti, altaristaflan er verk Matthíasar Sigfússonar en hún sýnir þegar Jesús sendir lærisveina sína út til að boða orðið .Taflan er eftirmynd af erlendu listaverki.

Í gömlu kirkjunni var altaristafla frá Holtskirkju, frá miðri 18. öld, fenginn af séra Sigurði Jónssyni frá Kaupmannahöfn. Sú altaristafla er vængjatafla þar sem í miðju er mynd af síðustu kvöldmáltíðinni en á vængjunum annars vegar mynd af krossfestingunni og hins vegar mynd af upprisunni. Altaristafla þessi prýðir nú Skógakirkju og er einn af dýrgripum hennar.

Heimild: Ásólfsskálakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/159-asolfsskalakirkja]


Eyvindarhólakirkja

Fyrst er fyrir víst vitað af kirkju í Eyvindarhólum árið 1200. En þá voru kirkjur á flestum lögbýlum sveitarinnar. Eyvindarhólakirkja var eina kirkja sveitarinnar sem stóð á eigin jörð en hinar voru bændakirkjur. Prestsetur var því í Eyvindarhólum. Nú tilheyrir Eyvindarhólasókn Holtsprestakalli.

Eftir að kirkjur Austur-Eyfellinga höfðu týnt tölunni stóð Eyvindarhólakirkja ein eftir 1890 eftir að Steinakirkja og Skógakirkja voru aflagðar.


Í gegnum aldirnar stóð kirkjan í Eyvindarhólum í miðjum núverandi kirkjugarði. Síðasta kirkja var reist þar 1895 og var þá stór og glæsileg timburkirkja. Þegar fóru að sjást ellimerki á henni var hún talinn ónothæf upp úr 1950.

Ekki þótti nóg pláss fyrir stærri kirkju innan kirkjugarðsins og því ákveðið að reisa nýja kirkju fyrir utan hann. Henni var síðan fundinn staður suðaustur af kirkjugarðinum.

Kirkjan var byggð eftir teikningum Harðar Bjarnasonar húsameistara ríkisins, yfirsmiður var Þorsteinn Jónsson frá Drangshlíðardal. Smíði hennar tók nokkur ár og var hún að lokum tilbúin til vígslu 1961. Á því ári vígði svo séra Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna.

Altari og prédikunarstóll eru úr gömlu kirkjunni og munu vera verk Hjörleifs Jónssonar í Skarðshlíð. Altaristaflan er olíumálverk sem sýnir upprisuna.

Heimild: Eyvindarhólakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/160-eyvindarholakirkja]


Skógakirkja

Skógar eru með elstu kirkjustöðum á landinu. Þar hefur kirkja staðið frá því um 1100 en hennar er fyrst getið í  Kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá aldamótunum 1200.

Kirkja hélst í Skógum allt til ársins 1890 en þá voru síðustu bændakirkjurnar í Steinum og Skógum lagðar niður enda voru þær baggi á ábúendum því að það var á þeirra ábyrgð og efnahag að halda þeim við. Síðasta kirkjan í Skógum var lítil og hrörleg timburkirkja. Núverandi kirkjugarður í Skógum þar sem gamla kirkjan stóð er öllu minni en hann var áður og talið víst að einhverjir hvíli utan girðingar hans eins og hún er í dag. Greftrað var í garðinum fram á síðustu öld. Þar voru síðast lagðir til hinstu hvílu ábúendur í Ytri-Skógum, sem bjuggu í Skógum til 1944 og fólk úr suðurbæjarfjölskyldu á Hrútafelli.

Skógar fengu svo aftur þann merka sess að eiga kirkju þegar Þórður Tómasson safnstjóri og fræðimaður í Skógum lét gamlan draum sinn og annarra rætast og reist var kirkja við Byggðasafnið í Skógum. Fyrstu skóflustunguna tók séra Halldór Gunnarsson í Holti. Kirkjan var reist eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar en til hliðsjónar voru hafðar gamlar sveitakirkjur. Sveinn Sigurðsson frá Hvolsvelli var yfirsmiður kirkjunnar. Að utan er kirkjan reist með nýjum viðum en að innan er að finna marga merkilega byggingarhluta og gripi úr kirkjusögu Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga.  

Kirkjan var vígð þann 14. júní 1998 af hr. Karli Sigurbjörnssyni biskupi.

Ef þið viljið fræðast meira um Skógakirkju og kirkjusögu staðarins er best að fara á vef Byggðasafnsins í Skógum. Slóðinn er: www.skogasafn.is þar má finna mjög ítarlega umfjöllum eftir Þórð Tómasson safnstjóra.

Heimild: Skógakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/162-skogakirkja]