Manngerðir hellar


Um uppruna manngerðra hella á Íslandi

Antoníusarmessa er um miðjan janúar. Hún er til minningar um heilagann Antoníus sem var egypskur munkur. Hann var uppi á 4. öld e. Krist og var frumkvöðull kristinna einsetu- og meinlætamanna. Fylgjendur  Egyptans, keltneskir menn, “Paparnir”, fóru frá Írlandi og settust að í Færeyjum. Stunduðu þar fjárbúskap og er þaðan komið nafnið á eyjarnar. Írskar sagnir segja að þessir einsetumenn hafi flúið frá Færeyjum um  árið 750, undan ágangi víkinga og farið til landsins Thule í norðri, þar sem sólin sest aldrei og hægt sé að leita sér lúsa á nóttinni. Þess er og getið í Landnámu að við landnámhafi hér verið fyrir írskir munkar. Bústaðir Papanna í heimalandi þeirra á Írlandi voru hlaðin býkúpuhús eða hellar. Þetta voru einsetumenn, þeir fjölguðu sér ekki og söfnuðu ekki veraldlegum gæðum. Þeir höfðu nógan tíma til að höggva sér hús í stein.

 

Efra-Hvolshellarnir  

Hellarnir við Efra-Hvol heita Írahellar og er Íraheiði fyrir ofan. Þú keyrir Fljótshlíðarveginn örlítið út úr Hvolsvelli og beygir inn Vallarafleggjara. Þessir hellar eru í bakkanum fyrir neðan sumarbústaðinn á Þórunúps-afleggjaranum. Margir þessara manngerðu hella á Íslandi voru gerðir á 19 öld, en heiti þessara staðfesta það að þeir séu frá því fyrir landnám.

Efra-Hvolshellanir eru þrír, tveir samliggjandi og einn stakur sem er talinn næst lengsti manngerði hellir á landinu, eitthvað nálægt 45 metra langur. Ekki er þó hægt að komast nema inn í einn þriðja af honum, sökum moldar við hrun á hlöðnu loftopi fyrir um 100 árum. Ekki er talin nein hætta á frekara hruni. Unnið hefur verið að uppbyggingu og bættu aðgengi að hellunum.

Efra-Hvolshellar eru friðlýstir.

 

Kverkarhellir

Kverkarhellir er í Seljalandskverk, eða Kverkinni eins og hún er kölluð dags daglega, undir Eyjafjöllum, um 20 km frá Hvolsvelli. Land þetta gaf Arnlaug Samúelsdóttir á Seljalandi þann 25 janúar 1955, Skógræktardeild Vestur-Eyjafjalla til minningar um eiginmann sinn, Kristján Ólafsson undir skógrækt. Árið 1981 (1989 formlega) var félagsskap afkomenda gefanda, Kverkarsamtökunum, afhent landið til umsjónar og hafa þeir sinnt plöntunarstörfum síðan af alúð og er þar í dag vaxinn upp allmyndarlegur skógarlundur og þar í brekkunni er hellirinn. Hann er um 20 metra langur og var þar á árum áður, þingstaður Vestur-Eyfellinga. Kverkarhellir var hreinsaður út árin 2000-2001 og bentu rannsóknir þar til mannvistaleifa frá því um landnám. Það er öllum velkomið að ganga um reitinn, sem er aðgengilegur og ágætur stígur er upp að hellinum, en vinsamlegast farið gætilega með eld. Hellirinn er friðlýstur 


 


Rútshellir

Rútshellir er í Hrútafelli (etv. Rútafell eða Hrútahellir) undir Eyjafjöllum, rétt áður en komið er á Skóga, 44 km frá Hvolsvelli. Þetta er heljar hellir og ofantil í honum er afhellir með það hátt til lofts, að eins og sjá má af holum í vegg, þá hefur einhvern tíman hefur verið sett upp í honum milligólf. Innst í þessum helli er silla, sem má ímynda sér að hafi verið svefnstaður manna. Þar fyrir ofan má sjá úthöggvinn kross. Í þessu bæli er gat niður í hellinn fyrir neðan og gæti það hafa verið gert til þess, að hitinn af skepnunum í neðri hellinum hafi leitað þar upp og yljað þeim er á sillunni sváfu.

 
Þjóðsaga er til af Rútshelli:

Sagan segir frá þrælum Rúts er hellirinn er skírður eftir, en þeir vildu vega hann. Bæli hans átti að hafa verið fyrir neðan umrætt gat og höfðu þeir gert gatið einhverju sinni er hann var úti og ætluðu þeir sér að leggja til hans með spjótum er hann kæmi til baka og legðist til hvílu. Hann kom heim og lagðist til svefns, en varð þeirra var og elti þá uppi og vóg, þeim síðasta er hét Guðni, náði hann upp á jökli við stein þann er heitið hefur síðan Guðnasteinn.

 

Nasistar, vísindamenn SS, komu hingað til lands árið 1936 til að rannsaka og leita að gömlum minjum um víkinga. Þeir komu í Rútshelli og dvöldu þar nær allan tímann. Þeirra niðurstaða var að hellirinn hefði verið hof í heiðnum sið, þar væri blótsteinn með úthöggnum festingum til að binda dýrið sem skyldi fórnað, þar fundu þeir hlautbolla fyrir blóðið og þaðan rennu í gólfinuað skál sem gat tekið restina af blóðinu. Þá var og þar greip í gólfinu þar sem skurðgoðið hafði verið skorðað í.

Hellirinn er merktur af þjóðminjasafni Íslands og er friðlýstur.

Steinahellir

Steinahellir er við hringveginn undir Eyjafjöllum, 36 km frá Hvolsvelli. Steinahellir var þingstaður Eyfellinga í 82 ár, frá 1820 - 1902. Hellirinn er af náttúrunnar hendi en var þó líklegast stækkaður af mannavöldum. Margar sögur eru til af Steinahelli, sögur af huldufólki og uppreisnum. Sólveig dóttir séra Páls Jónssonar frá Vestmannaeyjum átti að hafa séð hóp af fólki fyrir framan hellinn eitt sinn en  þegar hún sagði föður sínum frá því sá hann ekkert þar sem hann var ekki skyggn.

Steinahellir hefur þó ekki einungis komið til nota sem bústaður huldufólks: Árið 1888 þurfti heimilisfólk á Steinum að leita skjóls í hellinum eftir grjóthrun mikið sem olli miklum skaða á bænum. Hann hefur þar að auki verið notaður sem fjárhús og vélageymsla. Áberandi er hve mikið af tófugrasi er í loftinu á hellinum, að slíta það kann víst ekki góðri lukku að stýra enda undir verndarvæng álfa.

Fyrir framan Steinahelli er Hellisvatn þar sem áður var talið að nykur héldi sig, illgjörn þjóðsagnarvera sem líkist hesti. Jón Árnason segir frá stúlku sem sá eitt sinn gráann hest við vatnið og batt hún styttuband sitt í hann. Hún tók svo eftir því að hófar og eyru hans sneru öfugt og bað hún þá Guð að hjálpa sér. Nykrar þola ekki að heyra Guð nefndan og stökk hann þá af stað í átt að vatninu. Hann komst þó ekki ofan í vegna styttubandsins en ekki kom fram hvað varð af nykrinum í framhaldinu.

Hjá hellinum gerðu Eyfellingar uppreisn árið 1858. Sýslumaður Rangæinga og Trampe stiftamtmaður skipuðu þá bændum að baða allt fé sitt gegn fjárkláða. Gripu Eyfellingar þá til vopna og ráku sýslumanninn að Hellisvatni fyrir framan hellinn í þeim tilgangi að baða sýslumanninn sjálfan. Varð Trampe þá skelkaður og dró tilskipunina til baka og riðu þeir sneyptir á brott, Eyfellingum til mikillar gleði.

Einnig er til saga af draugum við hellinn. Skip fórst undir Eyjafjöllum með 14 mönnum, enginn komst lífs af. Skipið rak í land og var dregið yfir ísilagða Holtsósina og geymt fyrir framan Steinahelli. Fjármenn sem sátu yfir fé upp undir fjalli sjáu skömmu seinna dauða skipshöfnina ganga meðfram skipinu og stóð þeim mikill uggur af. Stuttu eftir það reið bóndi nokkur utan af Rangárvöllum hjá hellinum í svartasta skammdegi. Hitti hann þá mann sem bauð bóndanum að setjast með þeim. Hann tekur vel í það og ríður með manninum, þó að að frísandi hestur hans hafi viljað annað. Koma þeir að skipinu og sér bóndinn 13 menn standandi í kringum það, óhugnarlegir í viðmóti. Man bóndi þá eftir skipsrekanum um haustið og þykist hann þekkja þá dauðu. Hann verður hræddur mjög og tekur til fótanna. Hann heyrir drauganna kveða vísu þessa á flóttanum:

„Gangslaus stendur gnoð í laut.

Gott er myrkrið rauða.

Halur fer með fjörvi braut.

Fár er vin þess dauða,

Fár er vin þess dauða.“

Bóndinn flúði að Steinum og reið aldrei einsamall um veg þennan aftur. Menn þóttust heyra brak og högg í skipinu eftir þetta en það var loks höggvið niður.

Hellirinn er friðlýstur.

 Seljalandshellir

Seljalandshellir er á bæjarhlaðinu fyrir ofan bæina í Seljalandi undir Eyjafjöllum, sirka 21 km frá Hvolsvelli. Þessi hellir er líklega einna mest skreyttur eða úthöggvinn af Papahellunum, með fjöldann allan af krossum frá ýmsum heimshlutum, ásamt fangamerkjum. Til að komast í hellinn þarf að hafa samband við landeigendur. Hellirinn er friðlýstur.

 

Vatnsdalshellir

Vatnsdalshellir er fyrir ofan bæinn Vatnsdal um 17 km. frá Hvolsvelli. Um það bil 20 m frá veginum upp að Þríhyrningi er hellirinn sem fáir vita af og sést tæplega úr bíl nema maður viti af honum. Hann hefur þó verið merktur til að auka aðgengi.

   

Til er þjóðsaga um Vatnsdalshelli; 

 

Kerling ein, finnsk að ætt, bjó með dóttur sinni í Kaupmannahöfn og leigðu þær út herbergi fyrir námsmenn. Einn veturinn bjó hjá þeim íslendingur. Er fór að líða á veturinn fór hann að furða sig á því að á borðum var alltaf nýr silungur eða úrvals lambaket. Ekki fékk hann nein svör er hann spurði um hvernig stæði á því. Dóttir konunnar og námsmaðurinn íslenzki fóru nú að slá sér eitthvað upp saman og hugðu mæðgurnar að þar væri e.t.v. kominn væntanlegur tengdasonur. Eitt sinn er hann spurði um matföngin þá leiddu þær mæðgur hann fram í eldhús og sýndu honum þar ofurlitla holu ofaní eldstónna. Þar ofaní renndu þær færi og dorguðu upp spriklandi silungi. Hann varð af vonum undrandi, en þær tjáðu honum að þær seiddu silunginn til sín úr Vatnsdalstjörn á Íslandi, en kjötið fengu þær þannig, að þær seiddu til sín vænsta sauðinn úr Vatnsdalshelli. Stráki leist ekki á blikuna og um vorið stakk hann af frá kvonfangi sínu heim til Íslands. Er þangað kom fór hann að Vatnsdal og sagði heimilisfólki frá seiðkerlingunum og hættu menn þá að undrast óútskýranlegt sauðahvarf og var hætt að nota hellinn sem fjárhús. Er seiðkerlingin varð vör við þetta, varð hún svo reið að hún lagði það á vatnið, að allur silungur í því skildi verða að hornsílum og hefur svo verið síðan.

Vatnsdalshellir er friðlýstur.

 

Þórunúpshellar 

Þórunúpshellar eru eins og nafnið gefur til kynna á Þórunúpi. Hellarnir eru tveir og er gengt á milli þeirra með göngum og eru þeir friðlýstir af þjóðminjaverði þar sem þeir eru tilhöggnir af mannahöndum. 

Þórunúpshellar eru friðlýstir.

 

Náttúrugerðir hellar

 

Mögugilshellir

Mögugilshellir er í Þórólfsfelli í Fljótshlíð. Úr farfuglaheimilinu í Fljótsdal, u.þ.b. 25 km frá Hvolsvelli, er hægt að ganga fellið og taka hellinn í leiðinni. Þessi hellir er vel þekktur af heimamönnum og hellakönnuðum. Hellirinn er í blágrýtisæð og hefur hann myndast vegna gasbólu eða loftþrýstings. Hann er um 15 metra langur. Hellisveggirnir eru þaktir blágrýtistaumum og innarlega í honum eru einhvers konar gúlar um ½ m að þvermáli, allt kolsvart og gljáandi. Hellirinn er náttúrufyrirbrigði, einstakur sem slíkur og ekkert skyldur við hraunhellana okkar. Hellinum hefur verið lýst svo í náttúrufræðiritum: ,,einstakur og ekki vitað um annan svipaðan, hvorki hér á landi né annars staðar á jörðinni”.

Hellismuninn liggur neðarlega í Mögugili og niður gilið rennur lítill lækur. Vegna nálægðar við lækinn fylltist hellismunninn í vorleysingum fyrir rúmum 30 árum.

Fyrir um 15 árum tóku sveitungar sig til og gerðu bílastæði fyrir neðan gilið og mokuðu hellinn upp að hluta. Efri hellirinn eða “göngin” voru mokuð upp. Það voru um 6 metrar. Þá var gerður um 1,5 m hár garður til að varna þess að aftur rynni inn í hellinn. Þessi garður sópaðist í burtu um veturinn og hellirinn fylltist á ný. Sveitarstjórn Rangárþings Eystra ákvað í vetur að hefjast handa aftur við að hreinsa út úr hellinum. Í sumar hefur vaskur hópur manna mokað frá munnanum og inn í hellinn, þannig að hægt sé að skríða inn í efri hellinn. Það er mikil vinna að moka út úr hellinum, en margar hendur vinna létt verk og verður haldið áfram við útgröft í ágústmánuði. Til stendur síðan að loka svo gatinu yfir vetrarmánuðina, svo ekki renni inn í hann aftur.


Núpshellir  

Núpshellir er við bæinn Núp í Fljótshlíð í um 3 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Hellismuninn sést frá þjóðveginum og þaðan að sjá er þetta ekki stór hellir þar sem mikill klettur er fyrir munnanum en hann féll í jarðskjálftunum 1896. Hellirinn hefur verið nýttur sem útihús fyrrum og er líklega með stærstu móbergs hellum á Suðurlandi, frá náttúrunnar hendi. Í honum eru fornar rúnir og berghöld til að binda stórgripi við.

Hellirinn er í einkaeign.

 Paradísarhellir

Paradísarhellir er einn af þekktustu hellum landsins, ekki hvað síst fyrir að hýsa Hjalta (Barna-Hjalta) ástmann og síðar eiginmann Önnu stórbónda í Stóru-Borg.

Flestum ætti að vera fært að komast upp í hellirinn en þór er það nokkuð klifur og nauðsynlegt að fara að öllu með gát. Hægt er að styðja sig við kaðal á leiðinni sem gerir klifrið mun þægilegra, erfiðast er að komast fyrsta spölinn er auðveldar ofar. Á leiðinni upp má finna hreiðurstæði fýlsins sem hefur komið sér vel fyrir í skútum og á syllum.

Hellismuninn er frekar þröngur en þó er auðvelt að komast inn um hann. Aðeins þarf að beygja sig lítillega. Fyrir innan er rúmgóður hellir, um 5,5 metrar á lengd þar sem hann er lengstur og 3 metrar á breidd. Nokkuð hefur verið meitlað af stöfum í hellisveggina. Að innan er helst að finna mosagróður. 

Þjófárfoss–Þjófhellir–Þorleifsstaðahellir

Staðir sem hægt er að finna fyrir ofan Þríhyrning sem er í um 18 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Keyrt er upp hjá Vatnsdal í Fljótshlíð að Fiská. Hægt er að keyra langleiðina að fossinum og hellinum eftir djúpum slóða sem byrjar við Reynifell. Slóðinn er að mestu moldartroðningar en á stöku stað er stórgrýtt. Slóðin einungis fær litlum 4x4 jeppum eða jepplingum


Fyrir ofan Þríhyrning rennur Þjófá og í henni eru tveir fallegir fossar og hellisskúti sem er mjög vandfundinn. Í þessum helli dvöldu tveir þjófar á árunum 1743-44 og voru þeir hengdir á Þingskálaþingi er þeir náðust..

 

Húsarústir bæjarins að Þorleifsstöðum er þarna nokkru ofar. Sá bær og bæirnir í kring fóru í eyði í Heklugosinu 1947 eða upp úr því sökum vikurfalls. Þetta er fallegur staður til að stoppa á, sér í lagi í hestaferðum þarna um. Í einni slíkri týndust þar tveir demantshringar fyrir allnokkrum árum og eru getgátur um að eins sé farið með þá og kaleikinn fræga á Breiðabólstað. Álfar hafi fengið þá lánaða enda við á svipuðum slóðum og prestur var. Fundarlaunum er heitið fyrir þann sem finnur! Austan við rústirnar við Fiská er bergstandur er nefnist Smali og þar rétt ofar er manngerður hellir, allstór og með hlöðnu loftopi upp í gegnum þakið. Hellirinn er friðlýstur.

Gljúfrabúi – Hamragarðar

Gljúfrabúi er við tjaldstæðin í Hamragörðum. Þetta er fallegur foss sem er að hálfu falinn á bak við móbergskletta,en þó glittir í hann á bakvið fallegar kynjamyndir í klettunum. Fyrir það er Gljúfrabúi sérstakur, að hægt er að klifra upp á klettana (Franskanef) fyrir framan fossinn og er það áhrifaríkt að geta horft á fossinn úr lítilli fjarlægð upp í miðjum fossi. Klifrið er þó e.t.v. ekki fyrir mjög lofthrædda og þarf að halda sér í keðjur á kafla. Hafa skal aðgát á börnum og unglingum og yngsta kynslóðin á ekkert erindi þarna upp.


Í Hamragörðum er eins og fyrr getur tjaldstæði, sem eru ágætlega útbúin, með salernum, sturtum, tenglum fyrir rafmagn og leiktækjum fyrir börnin.


Gljúfrabúi er friðlýstur.

 

Gluggafoss

Rétt fyrir innan Þorsteinslund, um 21 km frá Hvolsvelli,  er fagur foss að nafni Gluggafoss. Hann er í Merkjá, smáá sem merkir landaskilin milli Hlíðarenda og Múlakots. Fossarnir eru í raun tveir, sá neðri breiður og lár, sá efri er Gluggafoss, tignarlegur og hár, u.þ.b 45 metrar á hæð. Saman nefnast þeir Merkjárfossar. Gluggafoss fellur fram af móbergsklettum sem voru hluti af strandlínu Íslands um ísöld. Nálægt er uppeldisstaður tveggja af merkustu skáldum landsins, þeim Bjarna Thorarensen og Þorsteins Erlingssonar.

Sem barn átti Bjarni Thorarensen, sem bjó þá á Hlíðarenda, að hafa týnst í 3-4 daga. Hann fannst svo að lokum uppi á klettanöf hjá Merkjá og er sagan sú að hann hafi verið tældur þangað af huldufólki. Hann var svo hátt uppi að menn héldu fyrst að þetta væri örn, barnið með rauðu kollhúfuna.  Eins og sést af kveðskap Bjarna var Fljótshlíðin honum mjög hugleikin: ,,Merkjá, er bregður í bugður bláar, fegurst áa.“ Jón Árnason segir sögu af huldufólki við ánna. Á Múlakoti bjuggu bræður tveir, þeir Jón og Ólafur. Einn morguninn þegar Jón var að gefa lömbunum kom að honum fögur kona. Hún skjallaði hann og blíddi, en Jón fór að gruna eitthvað og tók því illa. Hún gekk alltaf lengra og lengra og endaði með að biðja um hönd hans. Jón neitaði staðfastlega og fór. Einhverju seinna voru bræðurnir á ferð heim úr kirkju þegar Jón sá sömu konu við Merkjá. Hún hélt áfram að biðja hans og brást Jón hinn versti við en Ólafur sagði honum að haga sér. Álfkonan varð reið og sagði að Jón myndi gjalda orða sinna en að Ólafi hafi farið vel. Kom þessi bölvun niður á afkomendum Jóns úr Múlakoti.  Þorsteinn Erlingsson sagði líka sögu af vinnumanni á Hlíðarendakoti.  Hann átti að hafa hitt huldufólk við sláttur á flötinni fyrir neðan fossinn sem gerði hann svo hræddann að hann vildi aldrei vera einn hjá Gluggafossi aftur.

Gluggafoss er friðlýstur sem náttúruvætti. Á flötinni fyrir neðan fossinn héldu Rangæingar upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974.

 

 

Seljalandsfoss

Undir Eyjafjöllum, um 20 km frá Hvolsvelli, er líklega eina best þekkti foss landsins, Seljalandsfoss. Seljalandsáin á upptök sín upp á heiðinni fyrir ofan, rennur um Tröllkonugil, sem heitir eftir tröllkonu einni sem var að flýja hávaðann í kirkjuklukkunum í Ásólfsskála. Hægt er að ganga á bak við fossinn og koma fram hinu megin við hann, eða með öðrum orðum, ganga undir hann. Á kafla getur verið blautt á leiðinni, en það er alltaf þurrt á bak við hann. Þar er óviðjafnanlegt að standa og horfa á þetta mikla vatnsfall falla yfir höfuð manns úr rúmlega 60 metra hæð. Seljalandsfoss er upplýstur á kvöldin og veturna.


Við bílastæðin fyrir neðan fossinn hefur verið komið fyrir salernum, enda er þarna stanslaus straumur ferðamanna. Mjög fallegt er síðan að ganga frá fossinum og yfir á tjaldstæðin við Hamragarða en við þann göngustíg undir klettunum er mikið af hvönn, blágresi og öðrum blómjurtum.


Seljalandsfoss ásamt brekkum er friðlýstur.

Skógafoss 

Á Skógum undir Eyjafjöllum, um 48 km frá Hvolsvelli er Skógafoss. Mjög gott aðgengi er að Skógafossi. Bílastæði eru fyrir neðan fossinn með salernum, tjaldstæðum og ágætri aðstöðu. Skógafoss er í Skógá, sem er vatnsmikil og fellur vatnið nokkuð jafnt fram af 62 metra háum hamrinum, á allbreiðum kafla, sem gerir fossinn mjög tignarlegan. Hægt er að ganga inn smá gljúfur alveg að hylnum undir fossinum og þegar þangað er komið sér maður hversu lítill maður er, þegar staðið er á móti þvílíkri orku náttúruaflanna. Mikill vatnsúði er þegar svo nálægt er farið og vissara að hafa með regnkápu. Þessi vatnsúði gerir það að verkum að mjög oft má sjá regnboga undir fossinum og er talsvert skraut af honum.

 

Þjóðsagan segir að Þrasi landnámsmaður hér á Skógum hafi falið gull sitt í kistu undir fossinum, þar sem illfært væri að henni. Lengi vel mátti sjá í annan gafl kistunnar undir fossinum og einhverju sinni fóru þrír menn frá Skógum og vildu freista þess að ná kistunni. Við illan leik komust þeir það nálægt kistunni að þeir komu krók í járnhring þann er var á hlið kistunnar. Var nú tekið á, en kistan var það þung að járnhringurinn losnaði af kistunni og lauk þar með þeirri ferð. Járnhringurinn var síðan settur á kirkjuhurðina í Skógum og er nú geymdur á Skógasafni. Þegar

 

 

Skógafoss og áin ofan og neðan við fossinn er friðlýst náttúruvætti.Drumbabót

Við eyrar Þverár í Fljótshlíð, um 9 kílómetra frá Hvolsvelli, er að finna Drumbabót. Þar eru skógarleifar sem hafa síðustu öldina verið að birtast úr sandinum. Þetta er 100 hektara svæði af ævafornum birkitrjám (Betula pubescens) sem eru samkvæmt aldursgreiningum um 1200 ára gömul (755-830 e. Krist). Þessi birkiskógur náði eitt sinn yfir allt að 2000 hektara svæði og var mjög þroskaður og þéttur: 500-600 tré á hektara, gild og mikil tré, sum jafnsver og sverustu birkitré dagsins í dag eða yfir 30 sentimetrar í þvermáli. Þau eru enn í lífstöðu, rótin situr enn í móajarðveginum fyrir neðan þau, og benda flest suð-vestur. Árhringjatal sýnir að trén hafi flest verið 70-100 ára gömul þegar þau drápust. Ennfremur sýna árhringirnir að trén hafi öll drepist samtímis, því árhringur næst berki hefur myndast sama árið í öllum trjám.

Talið er trén hafi drepist  í jökulhlaupi, líklegast úr Mýrdalsjökli af völdum Kötlu. Drumbabót er í um 45 kílómetra fjarlægð frá jaðri Mýrdalsjökuls svo hægt er að segja að hlaup þetta hafi verið gríðarlegt. Rannsóknir sýna að 11-14 hlaup hafi farið niður úr Kötlu um Markarfljótsauranna á seinustu 9000 árum og  á hlaupið sem grandaði þessum forna skógi að vera það síðasta.

Hinir fornu drumbar í Drumbabót eru ekkert einsdæmi, álíka minjar hafa fundist við rætur Heklu, nema fyrir það leiti hversu vel þeir eru varðveittir. Sandurinn og askan sem hlaupið bar með sér grófu drumbanna allt að 90 sentímetra niður, bleytan í sandinum og öskunni sköpuðu þar kjöraðstæður til varðveislu, svo góðar að á sumum drumbunum má enn sjá hvítann börkinn. Fundist hafa ýmsar fornleifar á Drumbabót, rafperla og hnífur til að mynda, og gefur það til kynna að þar hafi eitt sinn verið búland. Munirnir eru til sýnist á Skógasafni.


Múlakot  

Í Múlakoti í Fljótshlíð, sirka 18 kílómetrum frá Hvolsvelli, bjó Árni bóndi Einarsson. Hann var mikill skógræktarmaður og kemur mjög við sögu við friðun Þórsmerkur á fyrri hluta síðustu aldar. Árið var 1935 og þá voru í landinu starfræktar 3 gróðrarstöðvar er framleiddu trjáplöntur. Þetta var engan veginn nóg og fluttar voru inn plöntur, m.a. frá Danmörku á þessum tíma. Einar E. Sæmundsen var þá skógarvörður á Suðurlandi og bauð Árni Skógræktinni m.a. kartöflugarðinn sinn undir græðireit, endurgjaldslaust ef Skógræktin sæi um að girða svæðið af. Þessi gróðrarstöð var í gangi fram undir 1950, en þá voru Tumastaðir komnir í gagnið, sem stærsta trjáplöntu-uppeldistöð í landinu.

 

Mikið tegundaval er í Múlakoti af trjám og eru m.a. hæstu tré á Íslandi í þessum lundi, ásamt því að hæstu tré einstakra tegunda er einnig þar að finna. Vestast í lundinum hafa verið byggðartröppur til að komast upp á klettana fyrir ofan og í skóginn þar. Hafa skyldi aðgát á krökkum þegar upp er komið.

 

Nínulundur  

Frá kirkjunni á Hlíðarenda, 14 km frá Hvolsvelli, er hægt að ganga í austur yfir í  Nínulund í Nikulásarhúsum (um 150 metrar). Þar var fædd árið 1892 Nína Sæmundson, sem var fyrst íslenskra kvenna til að leggja fyrir sig höggmyndanám. Eftir nám bjó hún ein 30 ár í Bandaríkjunum og varð þar ein af okkar frægustu myndhöggvurum, en eftir hana eru verk víða um heim. Í minningarreitnum hefur verið komið fyrir styttunni “Móðurást”, en það verk fékk fyrstu verðlaun í samkeppni í Los Angeles og tóku yfir þúsund listamenn þátt í þessari samkeppni. 

Þorsteinslundur

Lundurinn er til minningar um Þorstein Erlingsson skáld, gerður fyrir tilstuðlan Rangæingafélagsins í Reykjavík. Skógarlundurinn var vígður árið 1958, hundrað árum eftir fæðingu Þorsteins. Styttan af Þorsteini var afhjúpuð sama ár, höggvin af sveitungi hans Nínu Sæmundardóttur frá Nikulásarhúsum. Hellirinn í lundinum kallast Gluggahellir, fossinn Drífandi. Lundurinn er merktur við Fljótshlíðarveg um 21 km frá Hvolsvelliþ

Þorsteinn fæddist 27. september 1858 í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Í kirkjubók Dalsþinga er fæðingardagurinn reyndar 7. september en líklegra er að það sé villa og að Þorsteinn hafi vitað þetta rétt sjálfur. Hann var tvíburi og var tvísýnt með líf þeirra systkina í fæðingunni. Þorsteinn handleggsbrotnaði og þurfti að lífga hann og systur hans við. Í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð bjó amma hans, Helga Erlingsdóttir, og seinni maður hennar, Þorsteinn Einarsson, og buðu þau sveininum fóstur að gömlum íslenskum sið.

Þorsteinn var ungur að aldri þegar Steingrímur Thorsteinsson og Mattías Jochumson komu auga á skáldagift hans og komu honum til náms í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi hélt hann til Kaupmannahafnar til að nema lögfræði en lauk þó aldrei námi. Hann vann fyrir sér með kennslu en lifði við fátækt og örbirgð sem hafði stór áhrif á heilsufar hans seinna á lífsleiðinni. Hann sneri heim til Íslands árið 1896, eftir 12 ára veru í Kaupmannahöfn, og var þá búinn að vinna sér til nokkurar frægðar hér á landi. Þorsteinn gerðist ritsjóri Bjarka á Seyðisfirði og seinna Arnfirðings á Bíldudal. Árið 1914 lést hann úr lungnabólgu, 56 ára að aldri og skildi eftir sig eiginkonu og tvo börn.

Erfitt er að fella Þorstein við einhverja eina stefnu. Hann kemur framÞorsteinn er í dag þekktastur fyrir hugljúfann og rómantískan kveðskap sinn, líkt og í kvæðinu ,,Í Hlíðarendakoti“. Vandfundin er sú byggð sem hefur meira að bjóða næmum barnshuga en Fljótshlíðin, en hún var Þorsteini kær; ,,Ég sagði það hróðugur þjóðinni og þeim, að þú værir fegurst af öllum“ segir hann í kvæði sínu um heimasveitina. Hann lék þó einnig á aðra strengi í kvæðum sínum. Þorsteinn var trúleysingi og jafnaðarmaður mikill: deilur á kirkjuna og ríkjandi hefðir samfélagsins eru til staðar í ljóðum hans og varð hann því nokkuð umdeildur. Kvæðið ,,Rask“ sýnir það hvað skýrast en í því fer Þorsteinn ekki fögrum orðum um dönsk yfirráð hér á landi og olli það miklu hneyksli. Þrátt fyrir það var Þorsteinn hylltur sem þjóðskáld og lifa kvæði hans góðu lífi enn þann dag í dag.


 

 

Tunguskógur-Tumastaðir
Tunguskógur og Tumastaðir eru í Fljótshlíð, um 9 km frá Hvolsvelli. Þetta er vinsæll útivistarstaður í Rangárþingi eystra. Hér hafa heimamenn ræktað upp allmikið skóglendi, lagt þar göngustíga og komið fyrir borðum og bekkjum. Þarna er fallegt umhverfi, skjólsamt og mikið fuglalíf. Hægt er að velja um mislangar gönguferðir.

Skógrækt Ríkisins hóf rekstur gróðrarstöðvar á Tumastöðum árið 1944 og sveitungar hófu skógrækt í brekkunum í Tungulandi, sem er samliggjandi Tumastöðum árið 1951. Upp úr 1980 hóf hreppurinn stígalagningu í Tunguskógi og fékk meðal annars jarðýtu til að leggja aðalstíginn í brekkunni. Síðan hefur smám saman bæst við stígana og unnið hefur þar verið við grisjun á skóginum. Þá var þar um tíma höggvið umtalsvert af jólatrjám sem fór í afgreiðslu Landgræðslusjóðs og enn höggva Fljótshlíðingar sér þar tré. Stígarnir um Tunguskóg tengjast stígum Skógræktar Ríkisins og öllum er velkomið að njóta skóganna.

Tunguskógur er nú í eigu Rangárþings eystra og árið 2006 samþykkti sveitarstjórn að framtíðar útivistarsvæði sveitarfélagsins verði byggt upp í Tunguskógi og vonast sveitarstjórn til þess að íbúar sveitarfélagsins verði duglegir við að nýta sér skóginn til útivistar og kynna svæðið fyrir gestum sínum.

 

Seljavallalaug

Seljavallalaug undir Eyjafjöllum er í 44 kílómetra fjarlægð frá Hvolsvelli. Beygt er af Hringveginum inn Seljavallaveg og bílnum lagt að Seljavöllum. Síðan er gengið einhvern spotta inn Laugarárgil þangað til að í laugina er komið fremst í gilinu. Seljavallalaug er ein elsta sundlaug á Íslandi og var fyrst hlaðin með grjóti árið 1923 og svo steypt ári seinna.

Hvatamaður að hleðslu hennar var Björn Andrésson í Berjaneskoti sem fékk Ungmennafélagið Eyfelling til liðs við sig við verkið. Hafin var sundkennsla í lauginni, sem hluti af skyldunámi, árið 1927, sama ár og slíkt nám hófst í Vestmannaeyjum. Laugin er um 25 metrar á lengd og 10 á breidd og var stærsta sundlaug á Íslandi þar til árið 1936.

Árið 1990 var byggð ný laug um 2 km utar í dalnum, en enn má fólk fara í gömlu laugina sér að kostnaðarlausu en á eigin ábyrgð. Laugin er hreinsuð einu sinni á sumri. Fram að því er hún einatt þakin þykku slýi sem kallar á aðgát.

Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 fylltist Seljavallalaug af ösku. Snemmsumars 2011 kom saman hópur sjálfboðaliða til að hreinsa laugina með skóflum og gröfum.

Seljavallalaug er friðuð.

Tröllagjá

Vegurinn inn á Einhyrningsflatir liggur um Tröllagjá. Tröllagjá endar niður við Markafljót á móts við Húsadal. Þar eru uppi hugmyndir um að setja göngubrú yfir fljótið og jafnvel akfæra brú, sem mundi geraleiðina í Þórsmörk næstum fólksbílafæra. Göngubrú þarna yfir, mundi fjölga Laugarvegunum í eða úr Þórsmörk.

Í Tröllagjá er Valshamar og Valshamarsgil sem gaman er að ganga inn.

 

Drangurinn 

Drangurinn er mjög sérstök náttúrusmíð, þar sem hann stendur einn sér fyrir neðan bæina í Drangshlíð undir Eyjafjöllum. Þjóðsagan segir að Grettir Ásmundsson hafi verið að sýna krafta sína og hrundið þessum kletti úr Hrútafelli og eftir standi skarðið sem er fyrir ofan Skarðshlíð. Undir þessum kletti eru hellar og skútar sem byggt hefur verið fyrir framan í gegnum aldirnar og standa þau flest enn. Þessi hús eru gott dæmi um fornmannahús, enda hafa þar verið tekin upp atriði og kvikmyndir  eins og “Hrafninn flýgur”.

 

Drangurinn og næsta nágrenni hans er friðlýstur.

 

 


Pöstin

Af www.eyjafjoll.is:

,,Labbi var skæður draugur sem gerði mönnum lífið leitt þegar þeir ferðuðust fyrir Hvammsnúp. Þó fór svo að prestur nokkur kvað hann niður við illan leik, mörgum til gleði og ánægju sem um núpinn fóru.

Enn má sjá ferðamannagötuna vestur um brekkuna sunnan í Hvammsnúpi, vestur um öxlina hjá Össuaugum (Oddsaugum) ofan við Pöstin og áfram vestur í Hvammstún en þar tóku við Hvammstraðirnar. Þar vestan í móti er kletturinn Kálfhamar sem á 17. öld nefndist Litli Pastur. Skora gengur vestur í Pöstin neðan við Össuaugu. Þar heitir „í rassi“ og þar sagði sagan að séra Magnús hefði kveðið Labba niður í mýrina. Ég nam það af gamalli konu að Flóðalabbi hefði kunnað 10 tungumál en séra Magnús 11 og á því hefði hann sigrað drauginn.

Sumra sögn var að Magnús prestur hefði sigrað Flóðalabba með kveðskap í Æratobbastíl og er þetta upphafið:

,,Askan, taksan, ausin taus
Álana gerir að brjála.“

Austan í Pöstunum, niður við mýrina er klettur sem Flóðalabbi greip í er vörn hans þraut og mörkuðu fingurnir þau í klettinn sem enn sjást. Svo er að sjá sem Sigurður á Brúnum hafi álitið dýið sem Flóðalabbi hvarf ofan í, vera austar, eða í vesturjaðri Núpsengja.

Heimild: Goðasteinn, 23. og 24. árgangur, 1984 og 85, Þórður Tómasson skráði.“

 

 

Þórsmörk 

Í Rangárþingi eystra er ein helsta náttúruperla landsins, Þórsmörk og afréttirnir í kringum hana, með Eyjafjallajökul á aðra hönd og Goðalandsjökul / Mýrdalsjökul á hina höndina. Þórsmerkursvæðið er mjög giljótt, kjarri vaxið upp í brekkur og er mjög fjölbreytilegt. Ótalmargir áhugaverðir staðir eru á þessu svæði s.s. Snorraríki, Sóttarhellir, Álfakirkja, Stakkholtsgjá og steinbogi í Stóra-Enda. Ekki er fært í Þórsmörk nema á stórum jeppum eða rútum og hafa skal í huga að litlar sakleysislegar ár, geta breyst í stórfljót á nokkrum klukkutímum. Þrátt fyrir þessa farartálma er Þórsmerkursvæðið með vinsælli ferðamannastöðum á landinu. Þórsmörk, Almenningar og afréttir sunnan Krossár vestur að Jökultungum eru friðlýst sökum fjölbreytts og fagurs landslags. Skóglendi er þar í skjóli jökla og að hluta til í umsjá Skógræktar ríkisins.

 

Nauthúsagil

Nauthúsagil er kennt við hjáleigu Stóru-Merkur, Nauthús, sem stóð uppi við gilið.  Af nafninu er helst að ráða að upphaflega hafi verið þarna nautgripahús frá Stóru-Mörk en síðar hafi hjáleigan verið reist nálægt staðnum sem gripahúsin stóðu áður.  Engar aðgengilegar heimildir eru til um hvenær byggð eyddist á Nauthúsum.  Jarðabók Árna og Páls getur eyðibýlisins Nauthúsa en þar segir jafnframt að enginn viti um fyrstu byggð þar né hvenær sú byggð lagðist af.  En þjóðsaga ein hermir að bræður tveir frá Nauthúsum hafi verið miklir ribbaldar og drykkjumenn sem drukknuðu báðir í Markarfljóti er þeir ætluðu að drepa bóndann í Stóra-Dal sem kvæntur var systur þeirra.  Gengu bræðurnir báðir aftur og varð engum vært í Nauthúsum eftir það.  Sagan segir að Nauthús hafi við þetta fallið í eyði og ekki byggst framar og að enn sé reimt hér á Nauthúsum.


 Nauthúsagil er þröngt og djúpt.  Hægt er að ganga töluvert inn eftir gilinu ef menn eru tilbúnir að vaða eða stikla ána nokkrum sinnum.  Það er vel þess virði því gilið á fáa sína líka.  Innst í gilinu er hár foss en það sem vekur hvað mesta athygli er hinn mikli trjágróður sem skreytir gilbarmana og fæstir búast við að sjá.  Nauthúsagil er frægast fyrir reynitré sem stóð fremst í nyrðri gilbarminum.  Það var talið eitt mesta tré á Íslandi.  Helgi var á trénu og olli óhöppum að skerða það.  Reynitré þetta er m.a. talið hafa dafnað svo vel vegna þess að skammt frá rótum þess var lengi fjárból og hefur tréð vafalaust sótt þangað næringu.  Aldur trésins vita menn ekki með vissu en árið 1937 brotnaði einn stofn þess og við rannsókn þótti sýnt að hann væri ekki yngri en 90 ára gamall.  Gamla reynitréð er nú fyrir löngu fallið og nýtt risið upp af rótum þess.  Reynitrén í Múlakoti í Fljótshlíð eru ættuð frá gamla trénu hér í Nauthúsagili.  Nokkru innan við Nauthúsagil er fallegt gil sem nefnist Hellissel.  Í gilinu er lítill foss og hellisskúti og bendir örnefnið til þess að þar hafi verið sel á árum áður.  Tilvalið er að ganga frá Nauthúsagili yfir í Hellissel eða öfugt

 

Þórólfsfell

Þórólfsfell er 574 metra hár móbergsstapi. Þar mun hafa verið bæjarstæði að fornu, numið af Þórólfi Askssyni samkvæmt Landnámu. Systursonur hans Þorgeir gollni bjó þar síðar. Sonur hans var Njáll á Bergþórshvoli en Njáll átti þar annað bú samkvæmt Njálu. Efsti varnargarðurinn meðfram Markarfljóti var byggður út frá Þórólfsfelli til að bægja því frá farvegi Þverár. Útsýnið af toppi Þórólfsfells er magnað, enda umlukið jöklum og fyrnindum. Frá farfuglaheimilinu í Fljótsdal er fögur gönguleið upp á fjallið. Gengið er yfir Þórólfsá á göngubrú við gljúfurendann. Þaðan er gengið upp með gljúfrinu eftir kindagötum og stefnan tekin rakleiðis á toppinn. Valin er leið upp á grjóthrygg og þaðan eftir grasbala upp fyrir brún. Fjallið er nokkuð flatt að ofan og þarf að ganga aðeins inn á fjallið áður en raunverulegum toppi þess er náð. Þar er varða með fastmerki frá Landmælingum Íslands frá árinu 1958. Gangan tekur um 3-4 klukkustundir.

Ef tíminn er nægur er tilvalið að ganga að Mögugili sunnan við Þórólfsfell. Þar eru miklar móbergsmyndarnir, gengið er undir stórgrýti og í gegnum hella. Neðarlega í gilinu er að finna dropahellinn Mögugilshelli sem er mikið náttúrufyrirbrigði. Hellirinn er í blágrýtisæð, um 15 metra langur og hefur myndast vegna gasbólu eða loftþrýstings. Hann er þakinn blágrýtistaumum, innarlega í honum eru svo einhverskonar gúlar, allt kolsvart og gljáandi. Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni að Mögugilshellir sé einstakur á Íslandi, jafnvel í heiminum.

 

Aðra áhugaverða staði er að finna í GÖNGULEIÐUM

 

 
 

Stórólfshvolskirkja

Á Stórólfshvoli átti Stórólfur, sonur Ketils hængs, að hafa búið til forna. Sonur hans Ormur var hetja mikil og segir frá honum í Orms þætti Stórólfssonar. Þátturinn greinir frá hinum ýmsu þrekvirkjum Orms, meðal annars þegar hann sló engið fyrir neðan Stórólfshvol. Hann sló þá af allar þúfur og færði saman í múga ,,og þær einar engjar eru sléttar af Stórólfhvoli.”

Á Stórólfshvoli bjuggu Oddaverjar á 14. öld og var þar síðar sýslumannssetur.

Í dag er þar timburkirkja frá árinu 1930. Hún tekur um 120 manns í sæti. Árið 1955 var kirkjan máluð og skreytt af þeim Grétu og Jóni Björnssyni. Kirkjan á marga góða gripi, þar á meðal altaristöflu málaða af Þórarni B. Þorlákssyni frá árinu 1914, þar sem Jesús blessar börnin.

Heimild: Stórólfshvolskirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/storolfshvolskirkja_069.html]

 

Breiðabólstaður

Breiðabólstaður í Fljótshlíð hefur frá fornu fari verið talinn eitt af bestu brauðum landsins. Þá er átt við að á Staðnum, eins og Breiðabólstaðurinn er oft kallaður af heimamönnum, er prestssetur og áður fyrr fóru prestar helst ekki af staðnum nema til þess að taka við biskupsembætti.

Sá atburður átti sér stað á Bótólfsmessu 17. júní 1221 sem greinir frá í Sturlungu, að Oddaverjar fylgdu liði 300 saman og hittu Breiðbælinga fyrir við kirkjuna á Staðnum. Á einhverju höfðu þeir átt von því Björn bóndi, íklæddur pansara, var þar með sjö tugi manna til varnar. Ástæða deilna milli þessara aðila var m.a. sú að Steingrímur nokkur Skinngrýluson, Ísfirðingur, gerði um Loft í Skarði dansa marga og margs konar spott annað. Loftur þessi orti er hann reið í garð á Staðnum ásamt Sæmundi Jónssyni í Odda:

 

 ,,Hér fer Grýla

í garð ofan,

  ok hefir á sér

     hala fimmtán.“

 

Lyktir þessara 370 manna bardaga í kirkjugarðinum var að árásarmönnum tókst að leggja til Bjarnar með spjóti nokkru er hét Grásíða og Gísli Súrsson kvað hafa átt. Hvort hér er upphafið af sögunni um Grýlu skal ósagt, nóg er að sagan um Gilitrutt hafi gerst hér í Eyjafjöllum.

Kirkjan á Breiðabólstað var byggð árið 1912. Hún er krosskirkja, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni, samsvarar sér vel og er af mörgum talin með fegurstu kirkjum landsins. Ýmsa góða gripi á kirkjan og er hér sérstaklega nefndur kaleikur sá sem enn er í notkun. Sagan segir að eitt sinn var prestur að koma frá messu á Keldum og áði á grasbala. Hann var með kaleikinn með sér og lagði hann frá sér á þúfu, en þegar hann stóð upp var kaleikurinn horfinn, sama hvað leitað var. Einhverjum árum seinna var prestur enn á ferð og stoppaði eins og vant var á sama stað. Er hann var að búa sig til ferðar aftur, var kaleikurinn allt í einu ljóslifandi kominn. Var ráðið af þessu að álfar hefðu fengið hann lánaðan um tíma og sá ekki á honum á eftir, fyrir utan svartan blett einn í botni kaleiksins, sem er þar enn og næst ekki burt. Eftir þetta uppgötvaðist að kaleikurinn hafði lækningamátt. Um aldamótin 1900 flykktist fólk allstaðar af landinu heim á Staðinn til að leita sér heilsubótar með því að mæta í sunnudagsmessu og dreypa á kaleiknum.

Það er mjög skemmtilegt að ganga upp Flókastaðagil frá Breiðabólstað. Best er að leggja bifreiðinni við safnaðarheimilið og fylgja girðingu í vesturátt að gilinu. Þetta er ekki erfiður gangur eftir kindagötum, en ævintýraleg ferð að fara í með börn. Í gilinu er mikið fýlavarp. Efst í gilinu var uppistöðulón og rafstöð hér áður fyrr og var þá vinsælt að fara þangað á sumrin til að synda í lóninu. Þegar upp er komið er yfirleitt gengið beint í suður fram á brún fyrir ofan Staðinn. Þar eru bæjarrústir sem heita Háakot og sést þar vel yfir Staðarhverfið, Eyjahverfið og til Vestmannaeyja.
Hlíðarendi

U.þ.b. 14 kílómetrum frá Hvolsvelli er kirkjan á Hlíðarenda. Hún var reist 1897. Að innan setja þrjár helgimyndir eftir Ólaf Túbals helsta svip á kirkjuna, ásamt helgimyndum málaðar á veggina sem hann málaði einnig ásamt Jónda í Lambey.

Hlíðarendi er einn af aðalsögustöðum Njálu, en þar bjó Gunnar ásamt konu sinni Hallgerði, sem frægust er fyrir að neita honum um lokk úr hári sínu, svo hann mætti hnýta úr því nýjan bogastreng og varð það hans bani. Gunnar var heigður í Gunnarshaug og er hann talinn vera hóll ofan túns í norðaustur frá kirkjunni og þaðan má enn sjá hann ganga aftur, kátlegan með gleðibrag og kveða vísur. Frá kirkjunni er hægt að ganga yfir í  Nínulund í Nikulásarhúsum (ca.100 metrar). Þar var fædd Nína Sæmundson, ein af okkar frægustu myndhöggvurum, en eftir hana eru verk víða um heim. Í minningarreitnum hefur verið komið fyrir styttunni “Móðurást”. Hlíðarendi er merktur af Sögusetri og þar er mjög mikið gengið.

Einn helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi, Bjarni Thorarensen, var alinn upp á Hlíðarenda. Sem barn átti hann að hafa týnst í 3-4 daga. Hann fannst svo að lokum uppi á klettanöf hjá Merkjá og er sagan sú að hann hafi verið tældur þangað af huldufólki. Hann var svo hátt uppi að menn héldu fyrst að þetta væri örn, barnið með rauðu kollhúfuna.  Eins og sést af kveðskap Bjarna var Fljótshlíðin honum mjög hugleikin:

,,Á vori vænust meyja!

vafin öll í skart,

á sumri fríð húsfreyja!

flest hjá þér er þarft,

á hausti blíð sem móðir mæt,

á vetri fegurst línklætt lík,

lífs og dauð ágæt.”

 

Akureyjarkirkja

Akureyjarkirkja er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi.

Akureyjarsókn varð til 1912, þegar Voðmúlastaða- og Sigluvíkursóknir voru sameinaðar með kirkju í Akurey. Henni er þjónað frá Bergþórshvoli. Kirkjan var byggð úr timbri og vígð 1912.  Eftirmynd af Kristi og barninu eftir Carl Blochs, sem var máluð í kringum 1880, er altaristafla kirkjunnar. Þarna er líka félagsheimilið Njálsbúð frá 1954, sem einnig var barnaskóli sveitarinna.

Akureyjarkirkja er smíðuð eftir sömu teikningu og Grindavíkurkirkja frá 1909.

Þil var gert milli skrúðhúss og altaris á fimmta áratugnum en áður voru tjöld fyrir skrúðhúsinu. Árið 1962 var kirkjan klædd innan með texplötum, smíðaðir í hana lausir bekkir og litað gler sett í glugga.

Heimild: Akureyjarkirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/akureyjarkirkja_072.html]

Voðmúlastaðakapella

Voðmúlastaðakapella er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Hún er í Austur-Landeyjum og var vígð 1946 eftir kirkjuleysi á staðnum síðan 1912. Þá var ný kirkja risin á Akurey og sóknin var lögð til hennar.

Voðmúlastaðakirkja var lengstum útkirkja frá Krossi og helguð Pétri postula í katólskri tíð. Núverandi kirkja er nefnd kapella og er enn þá í Krosssókn.

Heimild: Voðmúlastaðakapella á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/vodmulastadakapella_0299.html]

Krosskirkja

Krosskirkja er í Holtsprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi. Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1850. Víðtækar endurbætur á kirkjunni fóru fram á árunum 1934, 1966 og 1971. Altaristaflan er frá 1650. Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga, Noregskonungi. Að Krossi var prestssetur fram að aldamótunum 1900.


Árið 1859 var Sigluvíkursókn í Vestur-Landeyjum lögð til Kross og sameinuð Voðmúlastaðasókn vorið 1912 með kirkju í Akruey. Prestsetrið var flutt að Bergþórshvoli og brauðið var kallað Krossþing eða Landeyjaþing til 1952.


Hönnuður er talinn vera Halldór Guðmundsson forsmiður í Strandarhjáleigu.


Í öndverðu var kirkjan klædd slagþili og rennisúð en var síðar klædd bárujárni.

Árið 1934 var kirkjan klædd að innan með krossviði, smíðuð í hana hærri hvelfing en verið hafði, setuloft stytt, þil gert um altaristöflu og forkirkja þiljuð af framkirkju.

Altaristaflan í Krosskirkju er ein af mestu dýrgripum sveitafélagsins. Hún er frá árinu 1650, gjöf frá þeim Kláusi Eyjólfssyni og Níelsi Klementssyni. Taflan er þrískipt: miðmyndin sýnir upprisu Krists, hægri vængurinn hinn þjáða Krist, vinstri vængurinn er hinsvegar torkennilegri; Jesú Kristur í allri sinni dýrð, þar sem sverð gengur úr munni hans. Það mun þá vera sverð andans sem er Guðs orð eins og segir í bréfi Páls til Efesusmanna.

Heimildir: 1. Krosskirkja á Kirkjukort.net [http://www.kirkjukort.net/kirkjur/krosskirkja_071.html]

Hægt er að lesa umfjöllun fræðimannsins Þorsteins  Helgasonar á altaristöflunni í greininni ,,Sverð úr munni Krists á Krossi” Helgason í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2000-2001, bls. 143 (Reykjavík, 2003) [http://timarit.is/view_page_init.jsp?requestedFileType=Web%20display&isDisplayThumbnails=false&pdfView=FitH]

Stóra-Dalskirkja

Kirkja hefur að öllum líkindum verið í Stóra-Dal frá kristnitöku á bæ Runólfs goða. En fyrsta heimild um hana er að finna í kirkjuskrá Páls Jónssonar biskups.

 Kirkjan þjónar Stóra-Dalssókn sem er vestan Holtssóknar og nær frá og með Fit og Fornusöndum að Stóru-Mörk, auk Hólmabæja, vestan Markarfljóts. Prestakallið var síðan sameinað Holtsprestakalli 1867 og hefur verið þjónað þaðan síðan. Fram til ársins 1924 var Stóra-Dalskirkja bændaeign en eftir það afhent söfnuðinum.

Fyrsta timburkirkjan var byggð 1843 innan núverandi kirkjugarðs, og má glögglega sjá hvar hún stóð. Hún var svo rifinn og önnur járnklædd timburkirkja byggð á sama stað árið 1895, og stóð hún til ársins 1970. Þá var kominn tími á að reisa nýja kirkju. Henni var valinn staður sunnan kirkjugarðsins og var hún reist á árunum 1964 til 1969. Kirkjuna teiknaði Ragnar Emilsson arkitekt. Hún er ekki í hinum hefðbundna kirkjustíl, en samt sem áður mjög falleg og hlýleg. Sá sem var yfir smíðum hennar var Þorsteinn Jónsson frá Drangshlíðardal.

Kirkjan var síðan vígð 1969 af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi.

Altaristafla kirkjunnar er eftirmynd Sigurðar Guðmundssonar málara af altaristöflu Dómkirkjunnar í Reykjavík sem máluð var af Wegener 1847 og sýnir upprisuna. Taflan var áður í Voðmúlastaðarkirkju.

Heimild: Stóra-Dalskirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/161-stora-dalskirkja]

Ásólfsskálakirkja
Ásólfsskálakirkja er við samnefndan bæ, Ásólfsskála, í Skálakrók. Ásólfsskáli hefur verið kirkjustaður frá því 1888 þegar þriðja kirkjuna tók af í roki á prestsetrinu Holti, en á þeim tíma óð Holtsá um Holtshverfið og olli landspjöllum. Voru þá uppi áform um að flytja bæði prestsetrið og kirkjuna að Ásólfsskála en úr varð að aðeins kirkjan var flutt. Til að fá land undir kirkjuna á Ásólfsskála þurfti séra Björn Þorvaldsson í Holti að skipta á hálfu Svaðbæli, sem var eign kirkjunnar, við Þorvald Bjarnason á Núpakoti og í staðinn fékk prestjörðin Holt hálfan Ásólfsskála.

Kirkja hafði reyndar verið á Ásólfsskála á miðöldum helguð Ólafi Noregskonungi, en hún var niður felld um 1550.

Eftir að kirkja Holtssóknar var færð að Ásólfsskála var henni fenginn staður í kirkjugarðinum og má sjá í honum minningarstein þar sem altari gömlu kirkjunnar stóð. Þessi kirkja var byggð úr timbri og klædd bárujárni. Hún var felld 1952.

Um 1940 var gamla kirkjan farin að láta á sjá og mönnum þótti tímabært að byggja nýja og veglega kirkju. Úr varð að séra Jón M. Guðjónsson í Holti teiknaði nýja kirkju sem reisa skyldi utan við kirkjugarðinn.Kirkja þessi átti að vera með tveim turnum.

Ekki gekk sem skyldi með bygginguna því að fjárskortur olli því að aðeins var steyptur grunnur undir nýja kirkju 1944. Það var ekki fyrr en 1951 að skriður komst á málið og að þessu sinni var byggt eftir teikningum þáverandi húsameistara ríkisins, Einari Erlendssyni.

 Yfirsmiður var Sigurjón Magnússon í Hvammi, mikill hagleiksmaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það var svo árið 1955 að nýja kirkjan var vígð af Ásmundi Guðmundssyni biskupi.

Kirkjan tekur um 140 manns í sæti, altaristaflan er verk Matthíasar Sigfússonar en hún sýnir þegar Jesús sendir lærisveina sína út til að boða orðið .Taflan er eftirmynd af erlendu listaverki.

Í gömlu kirkjunni var altaristafla frá Holtskirkju, frá miðri 18. öld, fenginn af séra Sigurði Jónssyni frá Kaupmannahöfn. Sú altaristafla er vængjatafla þar sem í miðju er mynd af síðustu kvöldmáltíðinni en á vængjunum annars vegar mynd af krossfestingunni og hins vegar mynd af upprisunni. Altaristafla þessi prýðir nú Skógakirkju og er einn af dýrgripum hennar.

Heimild: Ásólfsskálakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/159-asolfsskalakirkja]

Eyvindarhólakirkja

Fyrst er fyrir víst vitað af kirkju í Eyvindarhólum árið 1200. En þá voru kirkjur á flestum lögbýlum sveitarinnar. Eyvindarhólakirkja var eina kirkja sveitarinnar sem stóð á eigin jörð en hinar voru bændakirkjur. Prestsetur var því í Eyvindarhólum. Nú tilheyrir Eyvindarhólasókn Holtsprestakalli.

Eftir að kirkjur Austur-Eyfellinga höfðu týnt tölunni stóð Eyvindarhólakirkja ein eftir 1890 eftir að Steinakirkja og Skógakirkja voru aflagðar.


Í gegnum aldirnar stóð kirkjan í Eyvindarhólum í miðjum núverandi kirkjugarði. Síðasta kirkja var reist þar 1895 og var þá stór og glæsileg timburkirkja. Þegar fóru að sjást ellimerki á henni var hún talinn ónothæf upp úr 1950.

Ekki þótti nóg pláss fyrir stærri kirkju innan kirkjugarðsins og því ákveðið að reisa nýja kirkju fyrir utan hann. Henni var síðan fundinn staður suðaustur af kirkjugarðinum.

Kirkjan var byggð eftir teikningum Harðar Bjarnasonar húsameistara ríkisins, yfirsmiður var Þorsteinn Jónsson frá Drangshlíðardal. Smíði hennar tók nokkur ár og var hún að lokum tilbúin til vígslu 1961. Á því ári vígði svo séra Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna.

Altari og prédikunarstóll eru úr gömlu kirkjunni og munu vera verk Hjörleifs Jónssonar í Skarðshlíð. Altaristaflan er olíumálverk sem sýnir upprisuna.

Heimild: Eyvindarhólakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/160-eyvindarholakirkja]


Skógakirkja

Skógar eru með elstu kirkjustöðum á landinu. Þar hefur kirkja staðið frá því um 1100 en hennar er fyrst getið í  Kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá aldamótunum 1200.

Kirkja hélst í Skógum allt til ársins 1890 en þá voru síðustu bændakirkjurnar í Steinum og Skógum lagðar niður enda voru þær baggi á ábúendum því að það var á þeirra ábyrgð og efnahag að halda þeim við. Síðasta kirkjan í Skógum var lítil og hrörleg timburkirkja. Núverandi kirkjugarður í Skógum þar sem gamla kirkjan stóð er öllu minni en hann var áður og talið víst að einhverjir hvíli utan girðingar hans eins og hún er í dag. Greftrað var í garðinum fram á síðustu öld. Þar voru síðast lagðir til hinstu hvílu ábúendur í Ytri-Skógum, sem bjuggu í Skógum til 1944 og fólk úr suðurbæjarfjölskyldu á Hrútafelli.

Skógar fengu svo aftur þann merka sess að eiga kirkju þegar Þórður Tómasson safnstjóri og fræðimaður í Skógum lét gamlan draum sinn og annarra rætast og reist var kirkja við Byggðasafnið í Skógum. Fyrstu skóflustunguna tók séra Halldór Gunnarsson í Holti. Kirkjan var reist eftir teikningum Hjörleifs Stefánssonar en til hliðsjónar voru hafðar gamlar sveitakirkjur. Sveinn Sigurðsson frá Hvolsvelli var yfirsmiður kirkjunnar. Að utan er kirkjan reist með nýjum viðum en að innan er að finna marga merkilega byggingarhluta og gripi úr kirkjusögu Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga.  

Kirkjan var vígð þann 14. júní 1998 af hr. Karli Sigurbjörnssyni biskupi.

Ef þið viljið fræðast meira um Skógakirkju og kirkjusögu staðarins er best að fara á vef Byggðasafnsins í Skógum. Slóðinn er: www.skogasafn.is þar má finna mjög ítarlega umfjöllum eftir Þórð Tómasson safnstjóra.

Heimild: Skógakirkja á Eyjafjöll.is [http://www.eyjafjoll.com/index.php/en/component/content/article/42-ahugavereir-staeir/162-skogakirkja]